Viðskipti innlent

Ein stærsta hótelkeðja landsins til sölu

Hörður Ægisson skrifar
Hluthafar eignarhaldsfélagsins Keahótela, sem rekur samtals átta hótel víðsvegar um landið, meðal annars Hótel Borg og Apótek Hótel í Reykjavík, hafa sett félagið í söluferli. Á meðal þeirra sem áforma að selja hlut sinn í hótelkeðjunni er Horn II, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, en aðeins eru tæplega þrjú ár liðin síðan sjóðurinn festi kaup á 60 prósenta hlut í Keahótelum. Það er fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem er ráðgjafi seljenda við söluferlið en það hófst um miðjan síðasta mánuð.

Hermann Már Þórisson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga hjá Landsbréfum og annar framkvæmdastjóra Horns II, staðfestir í samtali við Markaðinn að framtakssjóðurinn, ásamt meðfjárfestum í Keahótelum, ætli að selja allt hlutafé hótelkeðjunnar. Hann segir að sú ákvörðun að selja á þessum tímapunkti hafi verið tekin í ljósi áhuga sem ýmsir innlendir og erlendir fjárfestar hafi sýnt á Keahótelum að undanförnu. Ekki er hægt að segja nákvæmlega fyrir um hversu langan tíma söluferlið muni taka en stefnt er að því að ljúka sölu á félaginu á þessu ári.

Rekstur Keahótela hefur gengið afar vel á undanförnum árum. Hagnaður félagsins á árinu 2015 nam 263 milljónum króna og næstum tvöfaldaðist frá fyrra ári. Þá var velta hótelkeðjunnar tæplega 1,7 milljarðar króna og jókst um liðlega 500 milljónir króna frá árinu 2014. EBITDA-hagnaður félagsins – afkoma fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir – var um 372 milljónir á árinu 2015, að því er fram kemur í síðasta birta ársreikningi, og hækkaði um meira en 200 milljónir á milli ára. Eignir Keahótela nema samtals 701 milljón króna og bókfært eigið fé félagsins var um 273 milljónir í árslok 2015.

Fimm hótel í Reykjavík

Ekki er búið að ganga frá ársreikningi fyrir síðasta rekstrarár en samkvæmt upplýsingum Markaðarins jókst EBITDA-hagnaður Keahótela umtalsvert á árinu 2016 og var samtals um einn milljarður. Sú aukning stafar einkum af því að hótelherbergjum sem heyra undir rekstur samstæðunnar fjölgaði mikið á tímabilinu vegna opnunar tveggja nýrra hótela í árslok 2015. Að sögn þeirra sem hafa setið fjárfestingakynningu á félaginu þá má gróflega áætla að heildarvirði þess gæti verið um sex milljarðar.

Auk framtakssjóðsins Horns II eru aðrir hluthafar Keahótela Tröllahvönn ehf., sem á 32 prósenta hlut í hótelfélaginu, og Páll L. Sigur­jónsson, framkvæmdastjóri Keahótela, en hann á átta prósenta hlut í gegnum félagið Selen ehf. Þeir hluthafar hafa einnig ákveðið að selja bréf sín í félaginu. Eigendur Tröllahvannar eru Andri Gunnarsson, Kristján M. Grétarsson, Fannar Ólafsson og Þórður Hermann Kolbeinsson. Þeir fjórmenningar standa jafnframt að baki félaginu Hvanna ehf. sem seldi 60 prósenta hlut í Keahótelum til Horns II framtakssjóðs í maí 2014.

Hluthafar í sjóðnum Horn II, sem var komið á fót í apríl 2013, eru 30 talsins og samanstanda af lífeyrissjóðum, fjármálafyrirtækjum og fagfjárfestum. Líftími sjóðsins er áætlaður fyrir árslok 2018 en auk þess að hafa fjárfest í Keahótelum hefur Horn II keypt eignarhluti í Bláa lóninu, Fáfni Offshore og Invent Farma. Horn II seldi sumarið 2016, ásamt öðrum íslenskum fjárfestum, hlut sinn í spænska lyfjafyrirtækinu Invent Farma.

Keahótel reka sem fyrr segir átta hótel, fimm í Reykjavík og þrjú á Norðurlandi, en á síðustu tveimur árum hefur félagið opnað tvö ný hótel í Reykjavík – hótelin Skugga og Storm. Önnur hótel sem félagið starfrækir eru Reykjavík Lights, Apótek og Borg sem er að finna í Reykjavík. Á Akureyri eru hótelin tvö – Hótel Norðurland og Hótel Kea – auk þess sem Keahótel reka hótelið Gíg í Mývatnssveit.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×