Viðskipti innlent

Eignarhlutir ríkisins í bönkunum framseldir eftir að lagaheimild fékkst

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eignarhlutur ríkisins í Arion banka var framseldur þann 3. september 2009 og hluturinn í Íslandsbanka þann 15. október 2009 með samningum sem gerðir voru við slitabú bankanna.
Eignarhlutur ríkisins í Arion banka var framseldur þann 3. september 2009 og hluturinn í Íslandsbanka þann 15. október 2009 með samningum sem gerðir voru við slitabú bankanna. vísir
Eignarhlutir ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka voru ekki framseldir til slitabúa bankanna fyrr en eftir að heimild fékkst til þess í lögum í desember 2009. Samningar um framsölin voru þó gerðir áður en lagaheimildin lá fyrir. Þetta kemur fram í umsögn Bankasýslu ríkisins um frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Frá því var greint í morgun að Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra, hafi ekki haft lagaheimild til að framselja eignarhluti ríkisins í Arion banka og Íslandsbanka árið 2009.  Eignarhlutur ríkisins í Arion banka var framseldur þann 3. september 2009 og hluturinn í Íslandsbanka þann 15. október 2009 með samningum sem gerðir voru við slitabú bankanna.

Í umsögninni vísar bankasýslan í álit Ríkisendurskoðunar um að samkomulag ríkisins við skilanefndir bankanna um yfirtöku á eignarhlutunum teldist til ráðstöfunar á eignum ríkisins. Það hefði því þurft að afla heimildar í lögum til að framselja hlutina, samkvæmt 29. grein laga um fjárreiður ríkisins. Lög sem staðfestu breytingar á eignarhlutum ríkisins í bönkunum voru hins vegar ekki samþykkt fyrr en þann 22. desember 2009.

Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra þegar eignarhlutur ríkisins í bönkunum var framseldur. Vísir/Valli
Eignarhlutirnir voru framseldir eftir þann tíma, að því er fram kemur í umsögn bankasýslunnar, þó að samningarnir hafi verið gerðir áður en formleg heimild fékkst í lögum. Það sé því rangt sem fram komi í frumvarpinu annars vegar að Arion banki hafi verið í eigu ríkisins fram í nóvember 2009, og hins vegar að Íslandsbanki hafi verið í ríkiseigu til október 2009.

Í umsögninni segir orðrétt:

„Hið rétta er að það var ekki fyrr en 8. janúar 2010, sem 87,0% eignarhlutur ríkisins [í Arion banka] var framseldur til Kaupskila ehf., sbr. skýringu nr. 120 á bls. 73 í ársreikningi bankans fyrir árið 2009. Hins vegar er eignarhlutur íslenska ríkisins 13,0% í ríkisreikningi sama árs, þar sem hann var gerður í júní 2010, þegar framsalið hafði þegar átt sér stað.“

Um framsalið til Íslandsbanka segir:

„Framsal 95,0% eignarhlutar ríkisins í bankanum til Glitnis hf. átti sér ekki stað fyrr en 31. desember 2009, sbr. skýringu á bls. 3 í ársreikningi bankans fyrir árið 2009.“


Tengdar fréttir

Forstjóri Bankasýslunnar telur ráðuneytisstjóra hafa brotið lög

Seinasta sumar hafði Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, tvívegis beint samband við Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslu ríkisins og reyndi að hafa áhrif á val á stjórnarformanni íslensks fjármálafyrirtækis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×