Innlent

Eiga að leggja siðferðismat á grunnskólanemendur

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Kennarar eiga að meta ýmsa þætti í fari tíundu bekkinga áður en þeir útskrifa nemendurna.
Kennarar eiga að meta ýmsa þætti í fari tíundu bekkinga áður en þeir útskrifa nemendurna. Fréttablaðið/Daníel
Samkvæmt nýrri aðalnámsskrá grunnskóla, sem kemur til framkvæmda á næsta ári, á við útskrift úr 10. bekk að gefa nemendum einkunnir meðal annars fyrir persónulega þætti og siðferðileg viðhorf.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði í síðustu viku að ekki kæmi til greina að gefa umsögn um sambærilega þætti á prófskírteini um framhaldsskólapróf. „Að mínu mati er það hvorki á færi skólastjórnenda né kennara að leggja dóm á persónuleika nemenda,“ segir Hilmar Hilmarsson, skólastjóri Réttarholtsskóla.

Meðal þess sem á að gefa einkunn á bilinu A til D er hvort nemandi geti „nýtt hæfni sína til að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi“, hvort fólk hafi „skýra sjálfsmynd“ og hvort nemandinn geti „verið meðvitaður um siðferðislegt gildi ábyrgrar netnotkunar og tekið ábyrgð á eigin samskiptum á neti og netmiðlum“.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, og Hilmar skólastjóri segja að það geti orðið þrautin þyngri fyrir kennara að gefa sameiginlegt mat um þessa þætti. Hver kennari hafi sitt siðferðismat sem geti verið allt annað en kennarans við hliðina á honum.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sagði í Fréttablaðinu á laugardag að á meðan hann væri menntamálaráðherra yrði „aldrei tekið upp þannig kerfi að skólastjórnendum verði lagt það á herðar að leggja siðferðilegt mat á nemendur“. Ekki náðist í ráðherra við vinnslu þessarar fréttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×