Enski boltinn

Eggert og félagar geta fallið í lokaumferðinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson. vísir/getty
Eggert Gunnþór Jónsson og félagar hans í enska C-deildarliðinu Fleetwood fengu skell á útivelli gegn Walsall, 3-1, í næst síðustu umferð deildarinnar sem kláraðist í dag. Walsall komst í 3-0 og vann leikinn auðveldlega.

Eggert var í byrjunarliði Fleetwood í dag eins og vanalega en var tekinn af velli á 59. mínútu.

Fleetwood hefur gengið skelfilega að undanförnu og sogast í mikla fallbaráttu. Liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu ellefu leikjum sínum og safnað níu stigum af 33 mögulegum á þeim tíma.

Eftir tapið í dag er Fleetwood í 20. sæti, einu sæti fyrir ofan fallsvæðið, með 48 stig. Blackpool er sæti neðar með 46 stig og Doncaster með 45 stig í 22. sæti deildarinnar.

Doncaster er sama og fallið því það er með -16 í markatölu en Fleetwood -4 þannig Eggert og félagar þurfa ekki að hafa áhyggjur af Doncaster. Baráttan í lokaumferðinni um að halda sér uppi verður á milli Fleetwood og Blackpool.

Fleetwood tekur á móti föllnu liði Crewe Alexandra á heimavelli en Blackpool heimsækir Peterborough sem er um miðja deild og hefur að engu að keppa.

Eggerti og félögum mun alltaf nægja jafntefli því liðið er með mun betri markatölu en Blackpool. Geri Fleetwood jafntefli í lokaumferðinni þarf Blackpool að vinna Peterborough með 15 marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×