Fótbolti

Dyke: Forverar mínir bönnuðu kvennafótbolta í 50 ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
England mætir Japan í undanúrslitunum í kvöld.
England mætir Japan í undanúrslitunum í kvöld. vísir/getty
Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, segir að Englendingar geti verið stoltir af landsliði sínu sem mætir heimsmeisturum Japan í undanúrslitum á HM kvenna í Kanada í kvöld.

Ensku stelpurnar hafa komið mjög á óvart á mótinu. Þær byrjuðu reyndar á því að tapa fyrir Frakklandi en hafa síðan unnið fjóra leiki í röð, alla með markatölunni 2-1, eru komnar alla leið í undanúrslit í fyrsta sinn.

Sjá einnig: Katrín: Enska liðið er ekkert ósvipað því íslenska.

„Í kvöld mun ég fylgjast með hvort enskt landslið komist í úrslitaleik HM. Það að við séum í þessari stöðu, að vera komin í undanúrslit gegn Japan, er frábær árangur en við viljum ekki að þetta taki enda strax,“ skrifaði Dyke í pistli sem birtist á Telegraph í dag.

„Það sýnir hversu gott starf Mark Sampson (þjálfari Englands), starfsliðið hans og leikmannahópurinn hefur unnið að við séum aðeins 90 mínútum - og jafnvel 120 mínútum og vítaspyrnukeppni - frá því að komast í úrslitaleikinn í Vancouver á sunnudaginn.“

Dyke segir jafnframt að það sé ótrúlegt að hugsa til þess hversu stutt er síðan konur máttu varla spila fótbolta.

„Nú er tími fyrir þá sem hafa unnið að framgangi kvennafótboltans að gleðjast og vera stoltir yfir sínu framlagi.

„Það er fáránlegt að hugsa til þess að forverar mínir í starfi bönnuðu kvennafótbolta í næstum því hálfa öld áður en þeir sáu ljósið. Og það er sorglegt að hugsa til þess að heilu kynslóðirnar fengu ekki tækifæri til að spila fótbolta,“ sagði Dyke en enska knattspyrnusambandið tók kvennafótboltann ekki upp á sína arma fyrr en 1993.

Sjá einnig:Áhrifamikla lesbían, sú heimilislausa og bankastarfsmaðurinn.

Leikur Englands og Kanada hefst klukkan 23:00 í kvöld. Sigurvegarinn mætir Bandaríkjunum í úrslitaleik í Vancouver á sunnudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×