Enski boltinn

Drogba snýr ekki aftur í enska boltann

Anton Ingi Leifsson skrifar

Didier Drogba, fyrrum framherji Chelsea og núverandi framherji Montreal Impact í MLS-deildinni, segir að það væri heiður að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina, en að hann þurfi hvíld.

Drogba fór frá Chelsea eftir að þeir urðu meistarar í sumar, en þá gekk hann í raðir Montreal Imapct. Þar hefur hann leikið á alls oddi og skorað tólf mörk í fjórtán leikjum.

Menn á borð við Robbie Keane og Landon Donovan hafa farið á stutt lán til Englands á meðan fríið í Bandaríkjunum er og David Beckham fór meðal annars til AC Milan. Drogba segir að það sé ekki á döfinni.

„Það væri mikill heiður auðvitað, en ég held ég þurfti hvíld, að hugsa um fjölskyldu mína og svo koma aftur til Montreal og eiga gott tímabil," sagði Drogba í samtali við Sky Sports fréttastofuna.

Bæði Drogba og Steven Gerrard hafa báðir verið orðaðir við endurkomu til Englands, en þeir hafa nú báðir sagðir að svo verði ekki.

Chelsea hefur gengið afar illa á tímabilinu og sóknarleikurinn ekki verið upp á marga fiska. Þeir eru í fjórtánda sæti deildarinnar með fimmtán stig eftir markalaust jafntefli gegn Tottenham fyrr í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×