Enski boltinn

Draumabyrjun hjá Zlatan í búningi Man Utd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan skoraði afar laglegt mark.
Zlatan skoraði afar laglegt mark. vísir/epa
Það tók Zlatan Ibrahimovic aðeins fjórar mínútur að skora í sínum fyrsta leik fyrir Manchester United þegar liðið mætti Galatasary í vináttuleik í Gautaborg í kvöld.

Markið var af dýrari gerðinni en Zlatan klippti boltann í markið eftir fyrirgjöf frá Antonio Valencia.

United tókst ekki að fylgja þessari góðu byrjun eftir og Sinan Gumus jafnaði metin á 22. mínútu. Bruma skoraði svo annað mark Galatasary fimm mínútum fyrir hálfleik og Tyrkirnir leiddu, 2-1, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri United, gerði fimm breytingar í hálfleik og lærisveinar hans voru mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik.

Wayne Rooney jafnaði metin á 55. mínútu eftir fyrirgjöf frá Valencia og þremur mínútum síðar skoraði hann annað mark sitt úr vítaspyrnu.

Maraoune Fellaini skoraði fjórða mark United á 62. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Valencia sem lagði upp þrjú mörk í leiknum. Tólf mínútum síðar kláraði Juan Mata leikinn þegar hann skoraði fimmta mark ensku bikarmeistaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×