Körfubolti

Dirk fór fögrum orðum um Porzingis | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nowitzki reynir að verjast Porzingis í Madison Square Garden í nótt.
Nowitzki reynir að verjast Porzingis í Madison Square Garden í nótt. vísir/getty
Það fór vel á Dirk Nowitzki og Kristpas Porzingis þegar Dallas Mavericks og New York Knicks mættust í Madison Square Garden í nótt.

Hinn tvítugi Porzingis hefur komið eins og stormsveipur inn í NBA-deildina og margir hafa borið hann saman við Nowitzki sem kom, líkt og Porzingis, ungur að árum inn í NBA frá Evrópu.

Þrátt fyrir tap New York, 97-104,  spilaði Porzingis vel í nótt en Lettinn stóri skoraði 28 stig og hitti úr 13 af 18 skotum sínum. Eftir leikinn fór Nowitzki fögrum orðum um Porzingis og sagði að hann væri betri en hann sjálfum var á sama aldri.

„Það er fullkomlega sanngjarnt að bera okkur saman. Þegar ég var hérna tvítugur var ég skjálfandi á beinunum. Samanburðurinn er mér sennilega í óhag,“ sagði Nowitzki sem skoraði 25 stig og tók sex fráköst í leiknum í nótt.

Sjá einnig: Dirk fékk að dansa yfir skrefaregluna í NBA-deildinni | Myndband

Nowitzki, sem er á sínu 18. tímabili í NBA, segir að Porzingis hafi allt að bera til að ná langt.

„Hann er alvöru leikmaður og harðari af sér en hann lítur út fyrir að vera. Hann er hávaxinn, mikill íþróttamaður og fer vel með boltann. Það eru engin takmörk fyrir því hversu langt hann getur náð,“ sagði Nowitzki um Porzingis sem hefur heldur betur unnið stuðningsmenn New York á sitt band.

Það voru ekki allir hrifnir af því þegar Knicks valdi Porzingis með fjórða valrétti í nýliðavalinu í sumar en stuðningsmenn félagsins bauluðu á hann þegar ákvörðunin lá fyrir.

Nú er annað uppi á teningnum en Porzingis hefur spilað stórvel í vetur og er með 14,6 stig, 8,9 fráköst og 1,9 varin skot að meðaltali í leik. Til samanburðar var Nowitzki með 8,2 stig og 3,4 fráköst á sínu fyrsta tímabili í NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×