Innlent

Deildu um eignarréttinn á 67 ára gömlu mótorhjóli

Stefán Árni Pálsson skrifar
Engar sannanir eru til staðar þess efnis að eldri maðurinn hafi í raun gefið þeim yngri hjólið. Hjólið á myndinni er af sömu tegund og það sem mennirnir rífast um.
Engar sannanir eru til staðar þess efnis að eldri maðurinn hafi í raun gefið þeim yngri hjólið. Hjólið á myndinni er af sömu tegund og það sem mennirnir rífast um.
Tveir menn deila fyrir dómsstólum um eignarréttinn á 67 ára gömlu mótorhjóli sem er ógangfært. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöður á mánudaginn að engar sannanir væru fyrir því að eldri maðurinn, upphaflegur eigandi hjólsins, hefði gefið kunningja sínum hjólið eins og sá yngri hélt fram. Sá eldri tók hjólið af heimili yngri mannsins í apríl í fyrra og var í kjölfarið kærður fyrir þjófnað.

Deila mannanna snýst einfaldega um hvor sé eigandi hjólsins sem hefur verið í geymslu hjá móður annars þerra í hálfa öld. Annar mannanna heldur því fram að hann sé eigandi hjólsins eftir að hafa fengið það í gjöf frá hinum þegar hann var fimmtán ára árið 1969.

Hinn heldur því aftur á móti fram að hann hafi aðeins lánað drengnum hjólið. Hjólið er af tegundinni Panther, árgerð 1947, sem flutt var til landsins og var fyrst skráð hér á landi 11. júlí 1962.

Í upplýsingakerfi um skráningavottorð bifhjóla kemur fram að hjólið hafi fyrst verið skráð á göturnar þann 9. apríl 1963 en síðan afskráð 1. desember árið 1969.

Eldri maðurinn sagði fyrir dóm að hann hafa notað hjólið reglulega þar til hjólið bilaði. Þá hafi hann ekki haft efni á að gera við hjólið en lánað hinum yngri hjólið gegn þeim skilyrðum að hann myndi gera við það.

Maðurinn sem segist hafa fengið hjólið gefins segir að hinn hafi aldrei nefnt að hann ætti að gera við hjólið en það hafi verið óökuhæft.

Eldri maðurinn fór inn á heimili hins mannsins í apríl á síðasta ári og sótti hjólið. Í framhaldinu kærði yngri maðurinn hann til lögreglunnar vegna þjófnaðar.

Lögreglan lét málið falla niður vegna þess að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn á mánudaginn en þar kemur fram að engar sannanir séu til staðar þess efnis að eldri maðurinn hafi í raun gefið þeim yngri hjólið.

Því væri hjólið hans eign og var hann sýknaður af kröfu yngri mannsins. Hann þarf einnig að greiða þeim eldri 700.000 krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×