Innlent

Davíð við spyril RÚV: „Sýndu mér nú aðeins sanngirni. Þinn frambjóðandi kemst að á eftir“

Birgir Olgeirsson skrifar
Davíð Oddsson kallaði Guðna Th. frambjóðanda Ríkisútvarpsins og að hann hefði ekki sagt RÚV satt og rétt frá þegar hann mætti þangað sem álitsgjafi í kringum Panama-skjölin. Guðni sagðist eiga erfitt með að skilja hvernig Davíð næði að snúa málinu svona á hvolf.
Davíð Oddsson kallaði Guðna Th. frambjóðanda Ríkisútvarpsins og að hann hefði ekki sagt RÚV satt og rétt frá þegar hann mætti þangað sem álitsgjafi í kringum Panama-skjölin. Guðni sagðist eiga erfitt með að skilja hvernig Davíð næði að snúa málinu svona á hvolf. RÚV
„Enginn glæpur hefur verið framinn,“  sagði Guðni Th. Jóhannesson í kappræðum forsetaframbjóðenda í  Sjónvarpinu í kvöld. Þar var Guðni að svara ásökunum Davíðs Oddssonar þess efnis að Guðni væri frambjóðandi Ríkisútvarpsins, eitthvað sem hefur verið haldið fram nánast alla kosningabaráttuna og þá hvað hæst af Ástþóri Magnússyni. 

Allt hófst þetta á því að Davíð var spurður út í þau ummæli hans um að róg og illmælgi gegn honum. Þegar hann var beðinn um að segja hverjir stæðu að baki þessum rógi og illmælgi þá sagðist Davíð ekki ætla að gera það, slíkt lægi fyrir á netinu og þá hverjir kostuðu þess herferð gegn sér. Þess má geta að þegar Davíð fékk að ávarpa áhorfendur í lokin sagði hann að horfa mætti til þess hvaða frambjóðanda orðljótustu menn á netinu og útrásarofforsar og fjárglæframenn myndu aldrei kjósa.

„Bíddu rólegur aðeins elsku vinur“

„Það eru stórir hópar manna,“  var svarið sem Davíð gaf upp eftir að hafa verið margspurður. Hann hóf að segja frá því þegar hann var í þætti Sigmundar Ernis Rúnarssonar á Hringbraut en var stöðvaður og beðinn um að útskýra hverjir það væru sem stæðu að þessari herferð gegn honum.

„Bíddu rólegur aðeins elsku vinur, sýndu mér nú aðeins sanngirni. Þinn frambjóðandi kemst að á eftir,“ sagði Davíð við Einar Þorsteinsson, annar af þáttastjórnendum. Einar spurði Davíð hvað hann ætti við með því og svaraði Davíð: „Ætlar þú að taka allan minn tíma í þetta?“

Davíð sagði Sigmund Erni hafa sagt að Davíð væri sem maður sem hefur verið hvað mest rægður á Íslandi. Davíð sagðist ekki geta talið upp allt það fólk sem hefur rægt hann.

Hann var spurður hvort að forseti yrði ekki að geta tekið slíkum umtali og hann sagðist vel geta það en þetta væri staðreyndin og hún mætti vel liggja fyrir.

Sagði RÚV hafa staðið sig best í kynningu á frambjóðanda

Einar Þorsteinsson spurði aftur hvað Davíð hefði meint þegar hann sagði: „Þinn frambjóðandi kemur á eftir.“ Davíð sagðist hafa verið að meina frambjóðanda Ríkisútvarpsins og að það hefði staðið sig best í að kynna Guðna Th. Jóhannesson. Hann sagði Guðna hafa viðurkennt að hann hafi ákveðið að fara í framboð um áramótin en ekki látið Ríkisútvarpið vita af því þegar hann hefði verið fenginn inn sem álitsgjafi í kringum Panama-skjölin. 

„Þú hefur ekki látið þau vita að þú hafir verið að spögulera í framboði, þú sagðir reyndar að það hefði legið fyrir á heimasíðu þinni og að útvarpið hefði getað vitað þetta, það er kannski rétt,“ sagði Davíð.



Guðni sagðist ekki skilja hvernig væri hægt að snúa málinu svo á hvolf

„Nú er málum aðeins hallað ef ég má taka við núna,“ sagði Guðni.

Hann sagði að þegar Ólafur Ragnar Grímsson hefði tilkynnt í nýársávarpi sínu að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri þá hefði sá ágæti samkvæmisleikur hafist að orða fólk við embættið. Guðni sagði það ekkert leyndarmál að nokkrir hefðu komið að máli við hann og því slegið upp í ýmsum fjölmiðlum. Hann sagði það þó ekki vera svo að viðkomandi sé búinn að segja já við framboð þó nokkrir menn og fjölmiðlar orði viðkomandi við það. 

„Það er hægt að finna dæmi um það margstaðar að ég vildi ekki fara í forsetaframboð fyrst eftir áramót. Ég skil þetta ekki hvernig það er hægt að snúa þessu svona á hvolf,“ sagði Guðni. Sigríður Hagalín Björnsdóttir, annar af þáttastjórnendum, bað Guðna að skýra það út hvort hann hefði verið búinn að ákveða að fara framboð þegar hann var fenginn inn sem álitsgjafi hjá Ríkisútvarpinu í kringum umfjöllun um Panamaskjölin þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði af sér  sem forsætisráðherra vegna tengsla við aflandsfélagið Wintris. 

„Ég gat ekki ímyndað mér að þessi Wintris leikur þróaðist með þeim hætti,“ sagði Guðni. Hann sagðist hafa verið að koma úr kennslu þegar hringt var í hann og hann beðinn um að mæta sem álitsgjafi. Athyglin á hann jókst í kjölfarið og margir beðið hann um að taka slaginn sem hann ákvað að gera. „Ég vil láta gott af mér leiða og í stað þess að velja öryggi vanans að taka áskoruninni. Enginn glæpur hefur verið framinn,“ sagði Guðni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×