Erlent

Danski þjóðarflokkurinn mælist stærstur í fyrsta sinn

Atli Ísleifsson skrifar
Kristian Thulesen Dahl tók við leiðtogaembætti í flokknum af Piu Kjærsgaard árið 2011.
Kristian Thulesen Dahl tók við leiðtogaembætti í flokknum af Piu Kjærsgaard árið 2011. Mynd/Wikipedia
Danski þjóðarflokkurinn mælist í fyrsta sinn stærsti flokkur Danmerkur samkvæmt nýrri skoðanakönnun Megafon. Flokkurinn mælist með 21,2 prósenta fylgi, en Jafnaðarmannaflokkurinn með 19,8 prósent og Venstre 20,9 prósent.

Kosningar munu væntanlega fara fram í landinu eftir sjö eða átta mánuði og er líklegt að málefni innflytjenda verði ofarlega á baugi í kosningabaráttunni.

Danski þjóðarflokkurinn er á móti straumi innflytjenda til Danmerkur og var stuðningsflokkur ríkisstjórnar borgaralegra flokka á árunum 2001 til 2011. Aukið fylgi bendir þó til að flokksformaðurinn Kristian Thulesen Dahl kunni að verða ráðherra eða jafnvel forsætisráðherra í borgaralegri ríkisstjórn að loknum kosningum.

Thulesen Dahl hefur áður hafnað því að flokkurinn muni taka þátt í ríkisstjórn borgaraflokka og að hann kjósi frekar að standa utan ríkisstjórnar og þrýsta á stjórnarflokkana, fyrst og fremst þegar kemur að innflytjendamálum.

Peter Lautrup Larsen, stjórnmálaskýrandi TV2, segir að verði þetta niðurstöður kosninga gæti reynst erfitt fyrir forystumenn Danska þjóðarflokksins að veigra sér undan ríkisstjórnarábyrgð.

Danski þjóðarflokkurinn hlaut 12,3 prósent fylgi í þingkosningunum 2011, en hefur ítrekað mælst með um 20 prósent fylgi síðasta árið.

Thulesen Dahl tók við leiðtogaembætti af Piu Kjærsgaard árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×