Innlent

Dæmi um börn séu með beinkröm vegna D-vítamínskorts

Karen Kjartansdóttir skrifar
Dæmi er um að íslensk börn þjáist af svo alvarlegum D-vítamínskorti, að þau séu komin með beinkröm. Miklar líkur eru á því að þeir sem ekki taka lýsi yfir vetramánuðina þjáist af D-vítamínskorti. Þetta segir barna- og ofnæmislæknir.

Líkami okkar fær D-vítamín á tvennan hátt, það er með sólarljósi og í gegnum D-vítamínríka fæðu. Það segir sig sjálft að á myrkum vetrarmánuðum á Íslandi gegnir fæðan mjög ríku hlutverki í þessu samhengi. Öldum saman reyndu Íslendingar að þreyja þorrann með því að snæða feitan fisk og taka inn fiskafurðina lýsi.

Þetta gerðu þeir til að reyna að tryggja sig gegn beinkröm, sem stafar af D-vítamínskorti og getur meðal annars valdið afmyndun í beinum, þar sem D-vítamín veldur því að líkaminn getur nýtt kalk sem er nauðsynlegt fyrir heilbrigð bein.

Beinkröm var lengi landlægur sjúkdómur hér á landi en hvarf nær alveg eftir að skólar byrjuðu að gefa börnum lýsi. Nú hafa margir leikskólar og skólar hætt að gefa börnum lýsi í sparnaðarskyni og sumir foreldrar virðast ekki átta sig á því hve mikil hætta er á því að fólk fái D-vítamínskort yfir veturinn.

Michael Clausen, barna- og ofnæmislæknir, segir að mjög nýleg dæmi séu um að börn þjáist af miklum D-vítamínskorti og séu jafnvel með beinkröm. Hann hefur um árabil stundað rannsóknir á fæðuofnæmi og hefur mikinn áhuga á því hvernig fæða hefur áhrif á okkur.

„Það er merkilegt að lýsi er ekkert voðalega gott á bragðið, í því er ekki mikil næring, maður verður ekki saddur af því og það getur jafnvel verið hættulegt að taka lýsi. Þrátt fyrir þetta hafa Íslendingar tekið lýsi í að minnsta kosti þúsund ár og það er ekki af tilefnislausu, lýsi er D-vítamínríkt og þar með lífsnauðsynlegt þar sem við fáum ekki nægt D-vítamín hér á Íslandi úr geislum sólar. Okkur skortir því D-vítamín allan veturinn ef við tökum ekki lýsi. En svo eru það omega-3 fitusýrurnar sem eru mikilvægar fyrir geðprýði okkar og vellíðan en þær fitusýrur fáum við einmitt líka úr lýsinu," segir Michael.

Hann segir að lýsisneysla sé einkar mikilvæg nú þar sem einnig hafi dregið mjög úr fisk- og lýsisneyslu. Sólarljósið yfir vetrarmánuðina á Íslandi hefur hins vegar lítið aukist.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×