Erlent

Dæmdir fyrir fjöldamorð á börnum með eitruðu síropi

Atli Ísleifsson skrifar
Dómstóll í Dhaka, höfuðborg Bangladess, hefur verið með málið til meðferðar í mörg ár.
Dómstóll í Dhaka, höfuðborg Bangladess, hefur verið með málið til meðferðar í mörg ár. Vísir/AFP
Dómstóll í Bangladess hefur dæmt þrjá menn í tíu ára fangelsi fyrir að hafa borið ábyrgð á dauða fleiri hundruða barna með því að dreifa eitruðu síropi á tíunda áratugnum.

Dómarnir eru þeir fyrstu sem falla í málinu en von er á að fleiri dómar falli á næstunni. Dómarinn sagði mennina eiga skilið þyngstu refsingu fyrir brot gegn mannkyni.

Mennirnir störfuðu hjá lyfjafyrirtæki og eru dæmdir fyrir að hafa skipt út einu innihaldsefna síropsins fyrir ódýrari gerð sem er vanalega notað til að lita leður.

Nurjahan Begaum, faðir eins fórnarlambanna, segir að loksins sjái hann að réttlæti nái fram að ganga í málinu. „Ég hefði þó óskað þess að þeir hefðu verið dæmdir til dauða.“

Á vef danska ríkisútvarpsins segir að málið hafi vakið mikla athygli á tíunda áratugnum og orðið til þess að stjórnvöld neyddust til að grípa til aðgerða gegn lyfjaiðnaði í landinu.

Árið 2009 létust þó aftur fjöldi barna eftir að eitrað sírop komst í umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×