Menning

Cyndi Lauper sigursæl á Tony-verðlaununum

Söngleikurinn Kinky Boots var sigursælastur á Tony-verðlaununum á sunnudag. Verkið hlaut sex verðlaun af þeim 13 sem það var tilnefnt til.

Kinky Boots byggir á sannri sögu, sem samnefnd kvikmynd var gerð eftir árið 2005, og segir frá ungum manni sem bjargar skóverksmiðju fjölskyldunnar frá gjaldþroti með því að framleiða skó fyrir dragdrottningar.

Bandaríska „eitís“-stirnið Cyndi Lauper semur lög og texta. Verkið bar sigur úr býtum í flokknum söngleikur ársins og Lauper hlaut verðlaun fyrir bestu frumsömdu tónlistina. Gamanleikur Christophers Durang, Vanya and Sonia and Masha and Spike, var valið leikrit ársins en það byggir á sígildu verki Tjekov, Vanya frænda.

Tracy Letts var valinn besti leikarinn fyrir hlutverk sitt í Hver er hræddur við Virginíu Woolf? og skaut þar með Tom Hanks, sem spáð hafði verið verðlaununum, óvænt ref fyrir rass. Letts er einnig þekkt leikskáld og er höfundur verka á borð við Þrjár systur, Killer Joe og Fjölskylduna, sem öll hafa verið sett upp hér á landi. Hin 79 ára gamla Cicely Tyson var valin leikkona ársins fyrir leik í verkinu The Trip to Bountiful, þar sem hún steig á svið á Broadway í fyrsta sinn í þrjá áratugi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×