Körfubolti

Curry alveg sama þótt að þrír leikmenn Golden State fái hærri laun en hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Stephen Curry, mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar undanfarin tvö ár er langt frá því að vera í hópi launahæstu leikmanna deildarinnar.

Curry er meira að segja langt frá því að vera launahæsti leikmaðurinn í sínu eigin liði en hann er ekkert að kvarta.

Stephen Curry var í viðtali hjá Mercury News og þar sagðist hann ekkert ósáttur við það að þrír leikmenn Golden State fái hærri laun en hann. ESPN segir frá.

„Eitt sem faðir minn talaði við mig um er að telja aldrei peninga náungans. Það eina sem skiptir máli er hvað þú ert með og hvernig þú ferð með þitt. Það væri eitthvað meira að í mínu lífi ef ég væri að kvarta yfir því að fá 44 milljónir dollara á fjórum árum,“ sagði Stephen Curry í viðtalinu.

Curry fékk 44 milljóna dollara samning árið 2012 en eru  fimm milljarðar íslenskra króna á núvirði.

Klay Thompson, Draymond Green og Kevin Durant eru allir með betri samning en Stephen Curry.

Stephen Curry er að renna út á samningi í sumar og hann á von á risalaunahækkun samkvæmt fréttum bandarísku miðlanna. Golden State Warriors hefur möguleikann á því að borga Curry 210 milljónir dollara fyrir nýjan fimm ára samning. 210 milljónir dollara eru 24 milljarðar íslenskra króna á núvirði.

Stephen Curry segist ekki vera á förum og að hann vilji spila áfram með Golden State Warriors. „Hér er fullkominn staður að spila, áhorfendurnir eru frábærir, félagið er frábært og við höfum sett saman frábært lið sem er að keppa um titilinn á hverju ári. Það er engin ástæða fyrir mig að fara annað,“ sagði Stephen Curry.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×