Erlent

Conway: Engar áætlanir um að fá sérstakan saksóknara til að rannsaka Clinton

Atli Ísleifsson skrifar
Hillary Clinton.
Hillary Clinton. Nordicphotos/AFP
Donald Trump hyggst ekki fá sérstakan saksóknara til að rannsaka Hillary Clinton og meðferð hennar á tölvupóstum eftir að Trump tekur við völdum í janúar.

Kellyanne Conway, fyrrverandi kosningastjóri Trump, greindi frá þessu í morgunþætti MSNBC í morgun. Sagði hún engar áætlanir uppi um að hefja slíka rannsókn.

Trump ræddi mikið um tölvupóstamál Clinton í mánuðina fyrir forsetakosningarnar og sagðist ætla að tryggja að Clinton yrði komið fyrir á bakvið lás og slá þegar hann yrði orðinn forseti.

„Ég hugsa að þegar verðandi forseti, sem er einnig leiðtogi flokksins, segir þér áður en hann er svarinn í embætti að hann vilji ekki fylgja þessum ásökunum eftir, þá sendir það mjög sterk skilaboð,“ sagði Conway.

Conway sagði að Clinton stæði enn frammi fyrir að meirihluti Bandaríkjanna telji hana ekki vera heiðarlega eða traustsins verð. Sagði hún að ef Donald Trump gæti aðstoðað hana við að koma á sátt, þá væri þetta ef til vill það rétta í stöðunni.

Sjá einnig: Allt sem þú þarft að vita um tölvupóstamál Hillary Clinton

Trump sagði í öðrum sjónvarpskappræðum þeirra Clinton í október að ef hann ynni, „muni [hann] fá dómsmálaráðherrann til að fá sérstakan saksóknara til að skoða þín [Clinton] mál.“

Nú virðist sem sagt eins og Trump muni ekki standa við þessi orð sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×