Enski boltinn

Conte gefur lítið fyrir yfirlýsingar um að titillinn sé í höfn

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Conte ætlar ekki í sálfræðistríð við þann sérstaka.
Conte ætlar ekki í sálfræðistríð við þann sérstaka. Vísir/Getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að titillinn sé ekki Chelsea-manna fyrr en hann er örugglega í höfn. Gefur hann því lítið fyrir yfirlýsingar annarra knattspyrnustjóra um að Chelsea sé komið langleiðina með að fagna titlinum á ný.

Chelsea er með átta stiga forskot á næstu lið þegar þrettán umferðir eru eftir en Arsene Wenger, Pep Guardiola og Jose Mourinho hafa allir sagt að það sé nánast útilokað að annað lið en Chelsea verði meistari í vor.

Conte var á sínum tíma fyrirliði Juventus er ítalska liðið glutraði niður sex stiga forskoti í lokaumferðum ítölsku deildarinnar en Juventus þurfti að horfa á eftir titlinum til Lazio eftir óvænt tap gegn Perugia í lokaumferðinni.

„Ég man vel eftir þessum degi, ég var fyrirliði liðsins sem tapaði niður öruggu forskoti og að lokum titlinum á lokadeginum. Ég man að ég svaf lítið sem ekkert næstu daga og við þurftum að hefja undirbúninginn fyrir EM með ítalska landsliðinu.“

Conte segir að leikmenn Chelsea megi ekki sofna á verðinum.

„Ég hef minnt leikmenn á að það séu enn 39 stig í pottinum og minnt á að það ef við tökum 32 stig úr þessum leikjum verðum við meistarar. Annars getur hvað sem er gerst, strákarnir verða að halda einbeitingu og taka einn leik í einu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×