Enski boltinn

City og Everton í viðræðum um 50 milljóna punda Stones

Tómas þór Þórðarson skrifar
Guardiola vill Stones.
Guardiola vill Stones. vísir/getty
Ensku úrvalsdeildarliðin Manchester City og Everton eiga í viðræðum um sölu síðarnefnda liðsins á miðverðinum unga John Stones til City, að því fram kemur á vef BBC.

Ekki hefur verið komist að samkomulagi en því er haldið fram að félögin séu að nálgast hvort annað þegar kemur að kaupverðinu.

Everton hefur lengi verið sagt vilja fá 50 milljónir punda fyrir þennan 22 ára landsliðsmann Englands sem var ekki langt frá því að ganga í raðir Chelsea fyrir ári síðan.

Stones hefur náð langt á skömmum tíma en hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Barnsley í mars 2012 en 10 mánuðum síðar var hann keyptur til Everton fyrir þrjár milljónir punda.

Pep Guardiola vill ólmur fá Stones í sínar raðir en hann telur enska miðvörðinn vera leikmann sem passar inn í sinn leikstíl.

„Oftast eru miðverðir sterkir í loftinu og ákveðnir. En við þurfum miðvörð sem getur spilað boltanum og gefið auðveldar sendingar inn á miðjuna þannig miðjumennirnir geti komið góðum sendingum á sóknarmennina,“ sagði Pep Guardiola á fréttamannafundi í Kína á miðvikudaginn.

John Stones hefur verið lykilmaður í liði Everton undanfarin tvö ár en hann á tíu leiki að baki fyrir enska landsliðið og var í landsliðshópnum sem tapaði fyrir Íslandi í 16 liða úrslitum EM í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×