Enski boltinn

Chelsea stóð sig best á leikmannamarkaðnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diego Costa hefur hækkað raunvirði sitt.
Diego Costa hefur hækkað raunvirði sitt. Vísir/Getty
Efsta lið ensku úrvalsdeildarinnar stóð sig frábærlega á leikmannamarkaðnum í sumar, en þeir leikmenn sem liðið keypti hafa margfaldað verðgildi sitt og sumir þeirra sem fóru hafa hríðlækkað í verði.

Þetta kemur fram í ítarlegri tölfræðiskýrslu The Football Observatory sem starfar innan Alþjóðlegu íþróttarannsóknamiðstöðvarinnar í Neuchatel í Sviss.

Árlega reiknar hópurinn út verðgildi rétt tæplega 1.500 knattspyrnumanna sem spila í ensku úrvalsdeildinni, spænsku 1. deildinni, Seríu A á Ítalíu, þýsku 1. deildinni og frönsku 1. deildinni og hafa fært sig um set á síðustu fimm árum.

Rannsóknarhópurinn notast við sinn eigin algóriþma sem metur verðgildi leikmanns út frá lengd samnings, aldri, leikstöðu, mörkum, skotum á mark og mínútum spiluðum. Miðað var að þessu sinni við tímabilið 13. desember 2013 til 12. desember 2014.

Þegar litið er yfir félagaskipti sumarsins og algóriþmi TFO notaður kemur í ljós að Chelsea gerði langbestu kaupin. Liðið keypti Diego Costa á 44 milljónir evra en raunvirði hans í dag er 84 milljónir evra vegna frammistöðu hans til þessa með Chelsea.

Cesc Fábregas kostaði Chelsea 37 milljónir evra en er nú metinn á 62 milljónir. Þeir tróna á toppi listans yfir bestu kaupin. Þá lét Chelsea David Luiz fara til PSG fyrir 50 milljónir en raunvirði hans í dag er 24 milljónir evra.

Manchester United var ekki jafn öflugt á leikmannamarkaðnum miðað við þessa rannsókn. Ángel di María kostaði liðið 75 milljónir evra en er nú metinn á 57 milljónir og Juan Mata hefur farið úr 44,7 í 33 milljónir evra.

Luis Suárez, sem fór til Barcelona, hefur einnig hríðlækkað í verði, sem stafar að stórum hluta til af því að hann spilaði ekki fyrr en í október. Hann kostaði Barcelona 81 milljón evra en raunvirði hans í dag miðað við algóriþma TFO er 48 milljónir evra. Liverpool „græddi“ því á sölu hans sé miðað við skýrsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×