Enski boltinn

Chelsea reyndi að þagga niður í fórnarlambi misnotkunar

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
vísir/getty
Fyrrum leikmaður Chelsea, Gary Johnson, segir að hann hafi fengið rúmar 7 milljónir króna frá félaginu fyrir að þegja um að hafa verið kynferðislega misnotaður af starfsmanni félagsins.

Starfsmaðurinn sem um ræðir heitir Eddie Heath og var njósnari hjá Chelsea um árabil. Johnson hefur fengið greiðslur síðustu þrjú ár frá félaginu en neitar nú að þegja þrátt fyrir múturnar.

„Milljónir manna horfa á Chelsea. Þetta er eitt stærsta og ríkasta félag heims. Stuðningsmenn félagsins eiga skilið að vita sannleikann um hvað sé í gangi hjá félaginu. Þeir reyndu að þagga niður í mér. Hversu margir í viðbót eru þarna úti sem Chelsea hefur reynt að þagga niður í?“ spyr Johnson sem lék með Chelsea frá 1978 til 1981. Hann kom til félagsins 11 ára gamall og segir að Heath hafi byrjað að misnota sig er hann var 13 ára.

„Ég ætla rétt að vona að félög komist ekki upp með hylja yfir sín ljótu verk. Það á enginn að sleppa frá réttlætinu. Það er íþróttinni fyrir bestu að allt verði núna opnað upp á gátt. Það sem gerði mig reiðastan er að ég fór til félagsins og sagðist hafa verið misnotaður. Ég var þá beðinn um að sanna það.“

Chelsea sagði á þriðjudag að félagið væri búið að ráða utanaðkomandi lögfræðifyrirtæki til þess að gera rannsókn á Eddie Heath. Heath er látinn.


Tengdar fréttir

Fengu 860 símtöl fyrstu vikuna

Neyðarlínan sem var opnuð fyrir fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis í enska boltanum hefur heldur betur verið vel nýtt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×