Viðskipti innlent

Býst við að Íbúðalánasjóður bjóði óverðtryggð lán á næsta ári

Hafsteinn G. Hauksson skrifar
Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs telur að sjóðurinn gæti byrjað að veita óverðtryggð íbúðalán á fyrri hluta næsta árs ef væntanleg lagaheimild verður að veruleika. Enn á þó eftir ná samkomulagi við lífeyrissjóði um fjármögnun óverðtryggðra útlána.

Þingmenn vonast til að hægt verði að veita Íbúðalánasjóði heimild í lögum til að veita óverðtryggð lán strax í þessum mánuði, en málið er nú til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd. Þá stendur spurningin eftir, mun íbúðalánasjóður koma til með að nýta þessa heimild verði hún fyrir hendi?

„Auðvitað er það von okkar að það takist að gera þessa breytingu; að koma á óverðtryggðum lánum. Það er það sem við erum að skoða, og með þessari heimild yrðum við þá komin með umboð til athafna ef við teljum að hægt sé að bjóða upp á þessa vöru með forsvaranlegum hætti," segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri sjóðsins.

Sigurður segir að enn séu nokkur mál óleyst, til dæmis séu viðræður framundan um hvort fagfjárfestar á borð við lífeyrissjóði geti hugsað sér að kaupa óverðtryggð skuldabréf Íbúðalánasjóðs til að fjármagna útlánin.

„Ég held að allir geri sér grein fyrir því að til langs tíma, þá liggur leiðin í óverðtryggða fjármögnun. En það er kannski erfitt að stíga fyrstu skrefin," segir Sigurður um stemninguna meðal fjárfesta fyrir þessum hugmyndum. Jafnvel þó heimildin komi til í þessum mánuði gæti þannig orðið nokkurra mánaða bið á að Íbúðalánasjóður hefji að veita óverðtryggð lán.

„Ef það koma ekki upp neinar stórkostlegar hindranir á þessari leið, þá gæti það farið að skýrast á fyrri hluta næsta árs." Sigurður sér fyrir sér að lánin verði til skemmri tíma, til dæmis tíu ára, sem síðan þyrfti að endurfjármagna, en hann telur líklegt að lánin verði með föstum vöxtum þar sem breytilegir vextir geti með reglulegu millibili sett lántaka í greiðsluvandræði þegar vextir hækka. En verða þessir lánakostir þá raunverulegur valkostur sem heimilin sjá sér hag í að nýta?

„Það er það sem við erum að vona; að við getum komið með þennan raunverulega valkost inn á markaðinn og boðið hann til fjöldans," segir Sigurður að endingu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×