Erlent

Byltingin í Egyptalandi veldur uppnámi í Bandaríkjunum - fréttaskýring

Mótmælandi á meðal lögreglumanna.
Mótmælandi á meðal lögreglumanna.
Mótmælin í Egyptalandi og krafan um að Hosni Mubarak, forseti Egyptalands, segi af sér eftir þrjátíu ára valdasetu, setja áætlanir bandarískra yfirvalda í Mið-Austurlöndum í uppnám.

Þúsundir íbúa í Egyptalandi hafa mótmælt á götum úti síðan á þriðjudaginn. Byltingin í Túnis virðist hafa hrundið af stað bylgju mótmæla hjá nágrannaríkjum sínum sem ná alla leið til Jemen. íbúar í Egyptalandi eru orðnir langþreyttir á atvinnuleysi, síhækkandi matarverði og lögregluofríki.

Sjö hafa látist í mótmælunum.
Þegar hafa sjö látist í mótmælunum sem eru verulega hörð. Búist er við að mótmælin nái hámarki í dag eftir bænastund múslima.

Bandaríkjamenn hafa þungar áhyggjur af ástandinu, þá ekki síst vegna þess að ríkin eiga í nánu stjórnmálasambandi. Mubarak er einn af fáum leiðtogum Mið-Austurlanda sem er á bandi Bandaríkjanna og er gríðarlega mikilvægur bandamaður á meðan Bandaríkin berjast bæði í Írak og tala fyrir aðgerðum gegn Íran. Mubarak er einnig einn af fáum leiðtogum arabaríkjanna sem er tilbúin að eiga í vinsamlegum samskiptum við Ísrael. Jafnvel ríkisstjórnin í Írak, sem er hliðholl Bandaríkjunum, er ekki tilbúin til þess að eiga í vinsamlegum samskiptum við ríkið.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, sagði í vikunni að það væri mat ríkisstjórnarinnar að egypsk stjórnvöld væru stöðug og væru að leita leiða til þess að mæta þörfum og kröfum almennings í Egyptalandi.

Vandinn er náttúrulega sá að krafa almennings er skýr; Mubarak þarf að víkja. Og hann virðist ætla að halda í völdin með öllum mögulegum leiðum. Þannig var beinlínis slökkt á veraldarvefnum í Egyptalandi í dag en mótmælin hafa hingað til verið skipulögð í gegnum samskiptasíðurnar Facebook og Twitter. Þá herma fregnir einnig að ekki sé hægt að nota farsíma.

Vandi Bandaríkjamanna varð heldur alvarlegri þegar í ljós kom að íslamskur stjórnmálaflokkur, sem hefur verið bannaður í Egyptalandi, tilkynnti að þeir myndu taka þátt í mótmælunum.

Ef mótmælendur hafa betur og Mubarak segi af sér, þá eru verulegar líkur á því að lýðræðisbyltingin í Egyptalandi muni að öllum líkindum leiða af sér óhliðholla ríkisstjórn gagnvart Bandaríkjamönnum.

Samkvæmt tímaritinu Time þá hvetur ríkisstjórn Bandaríkjanna Mubarak til þess að koma til móts við mótmælendur með hvaða hætti sem er til þess að varðveita valdið. Líklega mun sú leið verða ofbeldisfull.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×