Erlent

Búið boða til blaðamannafundar vegna kjarnorkuviðræðnanna

Atli Ísleifsson skrifar
Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, í Lausanne.
Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, í Lausanne. Vísir/AFP
Búið er að boða skyndilega til blaðamannafundar vegna samningaviðræðna sex stórvelda við fulltrúa íranskra stjórnvalda um kjarnorkuáætlun landsins. Fundurinn verður haldinn klukkan 17 að íslenskum tíma.

Verið er að leggja lokahönd á sameiginlega yfirlýsingu Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans, og Federicu Mogherini, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins.

Viðræður hafa staðið í Lausanne í Sviss í um viku, en upphaflegur frestur rann úr 31. mars.

Fulltrúar Bandaríkjanna, Þýskalands, Rússlands, Bretlands, Kína og Frakklands hafa unnið að því að ná samkomulagi við Írana þar sem þeir vilja þó tryggja að Íranar þrói ekki kjarnorkuvopn. Íranar neita því að hafa slíkt í hyggju og segja áætlun sína vera í friðsamlegum tilgangi.

Í frétt Reuters segir að heimsmarkaðsverð á olíu hafi fallið um fjögur prósent þegar fréttir bárust af því að haldinn yrði blaðamannafundur þar sem mögulega yrði greint frá samkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×