Erlent

Buenos Aires ekki lengur höfuðborg Argentínu?

Atli Ísleifsson skrifar
Cristina Fernández de Kirchner tók við embætti forseta Argentínu árið 2007.
Cristina Fernández de Kirchner tók við embætti forseta Argentínu árið 2007.
Cristina Fernández de Kirchner, forseti Argentínu, segir að argentínska þjóðin ætti að íhuga að flytja þing og stjórnsýslubyggingar frá höfuðborginni Buenos Aires og til Santiago del Estero.

Kirchner varpaði fram hugmyndinni í heimsókn sinni til hinnar sögufrægu borgar Santiago del Estero fyrr í vikunni, en borgin var stofnuð fyrir 455 árum síðan og er sú elsta í landinu. Santiago del Estero er um 1.000 kílómetrum norðvestur af Buenos Aires.

„Við ættum að endurmeta hvar við ættum að vera með höfuðborgina okkar, ef til vill meira í miðju landinu – jafnvel hér í Santiago del Estero, móður argentískra borga,“ sagði Kirchner.

Hugmyndin um að gera aðra borg en Buenos Aires að höfuðborg Argentínu er ekki ný af nálinni, en borgin er álitin vera landfræðilega fjarlæg öðrum hlutum landsins.

Um 250 þúsund manns búa í Santiago del Estero.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×