Innlent

Bruggið hellist yfir landann

Helmingur íslenskra námsmanna verður meira var við heimabrugg og smygl eftir hrun. Þriðjungur 18 til 64 ára Íslendinga segir slíkt hafa aukist og hefur hlutfallið hækkað síðan í fyrra.

Karlar verða frekar varir við aukið heimabrugg eða smygl heldur en konur, sérstaklega námsmenn. etta kemur fram í nýrri könnun sem gerð var á vegum MMR fyrir Félag atvinnurekenda (FA) um miðjan nóvember síðastliðinn.

Samkvæmt könnuninni hafði 31% svarenda orðið vart við mikla eða nokkra aukningu á heimabruggi eða smygli á áfengi frá hruni. Hlutfallið var um 22% árið áður. Tæp 48% svarenda á aldrinum 18-29 ára sögðust hafa orðið vör við mikla eða nokkra aukningu.

Amar Guðmundsson, framkvæmdastjóri FA, segir félagið lengi hafa kallað eftir heildstæðri áfengisstefnu frá stjórnvöldum í ljósi þess að áfengisgjöld hafi verið hækkuð mjög undanfarin ár.

"Niðurstöður könnunar okkar ýta undir þá kenningu að neyslan hafi einfaldlega flust út fyrir markaðinn," segir Almar. Hann bendir á að hækkun áfengisgjalda sé stundum réttlætt sem lýðheilsumarkmið, en ef neyslan færist út fyrir markaðinn náist það markmið ekki. Minnkandi opinber sala geti þá líka gert það að verkum að tekjumarkmið gjaldahækkana nást ekki heldur.

"Námsmenn og fólk í láglaunastörfum skorar hátt í könnuninni og það ætti að vera stjórnvöldum áhyggjuefni," segir hann. "Þegar gjöld hækka þá eru hóparnir sem eru verr settir fljótastir að finna sér aðra leið."

Sala á sterku víni í ÁTVR hefur dregist saman um meira en 100 þúsund lítra á milli áranna 2008 og 2011, eða um tæp 40%. Þá hefur salan í ár dregist saman um tæp 6% sé miðað við sama tíma í fyrra.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri ÁTVR, vill ekki nefna neinar ástæður sem gætu legið að baki samdrættinum. "Við höfum engar forsendur til að meta hvort [heimabrugg og smygl] sé að aukast," segir hún. "En það hefur verið samdráttur í sölu á sterku víni og auðvitað veltir maður fyrir sér hvort það skýrist af neyslubreytingu."

Í bandormi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að áfengisgjald hækki enn frekar eða um 4,6%.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×