Erlent

Breytti um nafn 23 ára Svía án hans vitundar

Atli Ísleifsson skrifar
Einhverja daga gæti tekið að leiðrétta málið og verður Robin því að bera nafnið um stund.
Einhverja daga gæti tekið að leiðrétta málið og verður Robin því að bera nafnið um stund. Vísir/AFP
Óprúttinn einstaklingur virðist hafa breytt nafni á hinum 23 ára Svía, Robin Lidvall, án hans vitundar. Í frétt Expressen segir að Lidvall hafi fengið bréf frá sænska Skatteverket, þar sem beiðni hans um nafnabreytingu hafi verið samþykkt. Heitir hann nú Slobodan Vladislavus Larva Dick Robin Lidvall.

Lidvall segist ekki hafa hugmynd um hver hafi gert honum þennan grikk og hefur hann tilkynnt málið til lögreglu. Nokkrar vikur gæti tekið fyrir hann að fá gamla nafnið sitt aftur þó að ekki sé ólíklegt að málið fái flýtimeðferð.

Talsmaður Skatteverket segist harma málið, en segir yfirvöld ekki í stakk búin að framkvæma ítarlegar rannsóknir í hverju tilviki fyrir sig. Um 4.400 beiðnir um nafnabreytingar hafa borist stofnuninni það sem af er ári.

„Kerfið er þannig byggt að treyst er á að fólk sé heiðarlegt þegar kemur að nafnabreytingum. Vissulega er hægt að skemma fyrir öðrum ef sá vilji er fyrir hendi,“ segir Peter Johansson í samtali við Expressen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×