Innlent

Börnin reyndust vera dömurnar í Draumbæ

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gátan um íslensku börnin í frönsku kvikmyndinni er leyst. „Þetta eru dömurnar í Draumbæ" sagði einn áhorfenda okkar sem kom okkur á sporið. Í ljós kom að myndirnar voru teknar fyrir hálfri öld í Vestmannaeyjum.

Við sýndum myndskeiðið í fréttum Stöðvar 2 í gær en Ásgrímur Sverrisson og nokkrir aðrir kvikmyndaáhugamenn vildu vita hvaða börn þetta væru og hvar og hvenær myndirnar voru teknar. Ástæðan er sú að þetta myndskeið frá Íslandi er notað í franskri kvikmynd sem í fyrra var valin þriðja besta heimildarmynd sögunnar.

Í dag barst ábending á Vísi um að myndirnar væru teknar í Vestmannaeyjum, við Draumbæ vestan við flugvöllinn þar sem bjó stór barnafjölskylda á þeim tíma. Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, sem gjörþekkir svæðið, telur að þetta séu dömurnar í Draumbæ, systurnar Kristbjörg, Halldóra og Áshildur, sem þá voru 6, 8 og 11 ára gamlar.

Nýleg ljósmynd af systrunum. Áshildur er til vinstri, Halldóra í miðið og Kristbjörg til hægri.
„Ég tel það víst að þetta séum við, þrjár systurnar,“ segir Kristbjörg Sigríður Kristmundsdóttir, elsta systirin, fædd 1954, en hún er nú búsett á Patreksfirði. Hinar tvær, sem sjást á myndskeiðinu, Halldóra Kristmundsdóttir, fædd 1957, og Áshildur Kristmundsdóttir, fædd 1959, búa báðar í Svíþjóð. 

Kristbjörg telur að myndirnar hafi verið teknar árið 1965 og segist aðspurð kannast við fötin sem þær systur klæddust. Franskur eldfjallafræðingur, Haroun Tazieff, tók myndskeiðin á Íslandi en frá Draumbæ sást vel til Surtseyjargossins. Kristbjörg kveðst þó ekki muna sérstaklega eftir myndatökunni. 

Hún segist aldrei hafa séð þessar myndir áður og segir það svolítið skrýtið að sjá þær núna. Hún kveðst raunar ekki vita til þess að nein önnur kvikmynd sé til af þeim systrum svo ungum og segir gaman að sjá þær, eftir öll þessi ár.

Alsystkinin frá Draumbæ eru sjö talsins. Hér eru hópurinn á fjölskyldumynd með móður sinni, Sigríði Valgeirsdóttur, frá árinu 1965, sama ár og kvikmyndin var tekin. Áshildur og Kristbjörg eru lengst til hægri en Halldóra í aftari röð lengst til vinstri.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×