Viðskipti innlent

Boot Camp og CrossFit Stöðin flytja starfsemina í Sporthúsið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Iðkendur Boot Camp munu framvegis geta æft í Sporthúsinu.
Iðkendur Boot Camp munu framvegis geta æft í Sporthúsinu. vísir/anton
Í byrjun ágústmánaðar munu Boot Camp og CrossFit Stöðin flytja æfingaaðstöðu sína í húsnæði Sporthússins í Kópavogi. Þjónusta fyrirtækjanna hefur hingað til verið starfrækt í Elliðaárdal. Stefnt er að því að Boot Camp verði nokkurs konar stöð inn í stöðinni og munu iðkendur hafa eigin sal út af fyrir sig sem er tvöfalt stærri en núverandi salur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðilum.

„Mér líst mjög vel á aðstöðuna í Sporthúsinu og það er frábært fyrir okkur að fá stærri og sérhannaða æfingaaðstöðu þar,“ segir Róbert Traustason, annars stofnenda Boot Camp. Sporthúsið mun taka yfir rekstrarhluta stöðvarinnar en það á ekki að hafa nein áhrif á iðkendur Boot Camp. „Þetta verða sömu æfingarnar undir sömu þjálfurunum. Eina breytingin verður nýtt húsnæði.“

Þrjú ár eru síðan Boot Camp flutti í húsnæðið í Elliðaárdal en reksturinn reyndist of dýr og því var ákveðið að flytja hann. Líkt og áður segir mun Sporthúsið taka yfir reksturinn en þjálfarar og lykilstarfsmenn Boot Camp fylgja með. CrossFit Stöðin mun sameinast Crossfit Sport.

„Ég hef fylgst með Boot Camp vaxa og dafna frá því það var stofnað,“ segir Þröstur J. Sigurðsson, eigandi Sporthússins. „Ég hlakka til samstarfsins og að geta fylgst með öllu því skemmtilega sem þeir taka upp á og bjóða iðkendum að taka þátt í.“


Tengdar fréttir

Framkvæmdastjóri Payroll fer í badminton og Boot Camp

Elísabet Ósk Guðjónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Payroll. Það er nýtt fyrirtæki sem sérhæfir sig í að þjónusta fyrirtæki sem vilja útvista verkefnum varðandi laun og starfsmannamál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×