Viðskipti innlent

Bónus skór hættir

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Bónus skór hefur verið talsvert oft lokuð síðastliðin ár. Á myndinni er Sonja og vinkona hennar Rut Rúnarsdóttir.
Bónus skór hefur verið talsvert oft lokuð síðastliðin ár. Á myndinni er Sonja og vinkona hennar Rut Rúnarsdóttir. Mynd/Sonja
Verslunin Bónus skór á Hverfisgötu er að hætta. Til stendur að hafa rýmingarsölu nú um helgina og með tíð og tíma opnar í rýminu kaffihús.

„Já þetta eru aldeilis tíðindi í miðbænum. Bónus skór loks að loka. Við ætlum að opna búðina um helgina og losa þennan lager,“ segir Sonja Magnúsdóttir en hún er sú sem leigir nú húsnæðið og hyggst opna kaffihúsið Vínil.

Bónus skór hefur verið í rýminu síðan um aldamótin en var annars staðar á Hverfisgötu í um áratug áður. Hún hefur því sett svip sinn á Hverfisgötuna í um þrjátíu ár. „Ég er semsagt búin að leigja rýmið af eldri herramanninum sem á það og hefur rekið skóbúðina í ég veit ekki hvað mörg ár,“ útskýrir Sonja.

En aðdáendur verslunarinnar hafa tekið eftir því að síðastliðin ár hefur hún sjaldan verið opin. Sonja segir það vera vegna þess að eigandi búðarinnar var í raun kona mannsins en hún féll frá fyrir nokkrum árum.

Sonja Jónsdóttir hefur sjálf búið á Hverfisgötu í fjölda ára.Vísir/Aðsend
„Underground“ kaffihús málið

Sonja keypti lagerinn allan upp en um þrjú þúsund skó er að ræða af öllum stærðum og gerðum; á börn, konur og karla.

Það er greinilega mikill áhugi á því að versla hjá búðinni. „Ég var með búðina opna í gær, var aðeins að taka til fyrir helgina og það komu fullt af kúnnum. Ég náði að selja nokkur skópör.“

Kaffihúsið Vínil mun leggja áherslu á að þjónusta íbúa miðbæjarins en síður ferðamannastrauminn. „Miðbærinn er orðinn svo eyðilagður af öllum þessum túristabúðum. Mig langar að stýra meira inn á lókalinn. Vera aðeins underground,“ segir Sonja og hlær. „Mér finnst það meira kúl.“

Rýmingarsalan verður næstu helgi eins og áður sagði en opið verður föstudag til sunnudags frá 12-18. Búðin stendur við Hverfisgötu 76.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×