Viðskipti innlent

Bóluáhrif óumflýjanleg innan hafta

Heimir Már Pétursson skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kjöraðstæður til afnáms gjaldeyrishafta nú. Gengisfall krónunnar, verðbólga og skerðing lífeyrisréttinda óumflýjanleg innan haftanna.
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kjöraðstæður til afnáms gjaldeyrishafta nú. Gengisfall krónunnar, verðbólga og skerðing lífeyrisréttinda óumflýjanleg innan haftanna. vísir/gva
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir meiri efnahagslega áhættu felast í því að viðhalda gjaldeyrishöftunum en afnema þau. Semja þurfi við kröfuhafa í föllnu bankana og afnema síðan höftin í hröðum skrefum eftir það.

Gjaldeyrishöft hafa verið við lýði frá hruni eða í um sex ár til að tryggja að nánast allur gjaldeyrisforði landsmanna streymi ekki úr landinu en hann dugar ekki fyrir heildarskuldum þjóðarbúsins í útlöndum.

Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færir fyrir því rök í grein í Fréttablaðinu í dag að nú séu kjöraðstæður í efnahagslífinu til að afnema gjaldeyrishöftin hratt.

Hvaða afleiðingar myndi það hafa fyrir gengi krónunnar að ykkar mati?

„Það er mjög erfitt að segja til um nákvæmlega hvaða afleiðingar afnám hefði á gengið. Því við vitum að jú að samhliða afnámi hafta, þar sem reynsla er af því annars staðar í heiminum og svo sem hér á landi líka, þá fylgir innflæði afnámi ekki síður en útflæði (fjármagns). Og það er mjög erfitt að segja til um hvernig það jafnvægi yrði,“ segir þorsteinn.

Hins vegar hafa margir sérfræðingar boðað að gengi krónunnar myndi falla mjög mikið við afnám haftanna og jafnvel hrynja, með tilheyrandi verðbólgu og kaupmáttarrýrnun almennings. Þorsteinn segir aðstæður góðar nú og ekki víst hvenær slíkar aðstæður skapist aftur.

„Og í raun og veru gæti afnámið virkað sem ágætis mótvægisaðgerð við yfirvovandi þenslu sem virðist vera í pípunum hjá okkur,“ segir Þorsteinn.

Ef ekki verði ráðist í afnám haftanna verði þensluáhrif þess mikla fjármagns sem nú sé lokað innan haftanna mikil. Því fylgi óumflýjanlega umtalsverð verðbólga og gengisfall.

Sýnist þér að það sé bólumyndun í gangi núna?

„Ég held að það sé óumflýjanlegt miðað við það mikla fjármagn sem hér er fast innan hafta að hún verði. Við sjáum auðvitað að það er mikill og hraður uppgangur núna á fasteignamarkaði. Það hefur verið mikill uppgangur á hlutabréfamarkaði, þótt hann hafi reyndar verið tiltölulega rólegur á þessu ári,“ segir framkvæmdastjóri SA.

Bóluáhrif innan haftanna séu því óumflýjanleg. Það sé óhugsandi að lífeyrissjóðirnir geti staðið undir 3,5 prósenta ávöxtunarkröfu á þá innan haftanna. Ef ekki verði tekin ákveðin skref til afnáms hafta sé fyrirsjáanlegt að skerða þurfi lífeyrisréttindi innan fárra ára.

En er hægt að gera þetta án þess að hafa náð samningum við kröfuhafa föllnu bankanna?

„Nei, ég held að slíkir samningar séu alltaf forsenda þegar við afnemum höftin. En við erum einfaldlega að segja að í framhaldi af slíkum samningum þurfi skrefin að vera ákveðin og hröð,“ segir Þorsteinn Víglundsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×