Viðskipti innlent

Boðar endurnýjun skipaflota Eimskips

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Lagarfoss, nýjasta skipið í flota Eimskipafélagsins, kom í fyrsta sinn í Reykjavíkurhöfn í dag. Forstjóri Eimskips boðar endurnýjun á skipaflota félagsins.

Fjölmenni var á miðbakka gömlu hafnarinnar í Reykjavík í dag þegar nýjasta skip Eimskipafélagsins, Lagarfoss, kom til Reykjavíkurhafnar í fyrsta sinn. Séra Pálmi Matthíasson bað drottinn um að blessa skipið áður en því var gefið nafn og vígt með táknrænum hætti.

Lagarfoss kostar Eimskipafélagið um tvo milljarða króna en það var sjósett með athöfn í Kína á síðasta ári. Skipið er um 140 metrar á lengd og 23 metrar á breidd. Burðargeta skipsins er um 12 þúsund tonn og mun Lagarfoss sigla á gulu leiðinni en meðal áfangastaða eru Þórshöfn í Færeyjum, Hamborg og Rotterdam.

„Þetta skip er hraðskreiðara en önnur skip, er töluvert stærra en Selfoss, skipið sem það er að leysa af. Lagarfoss er um 150 gámaeiningum stærra með fleiri frystitengla og er mjög vel búið til að geta farið með ferskar sjávarafurðir og komið því á markaði,“ segir Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélagsins.

Lagarfoss er 16. skipið í flota Eimskipafélagsins en von er á öðru nýju skipi á næsta ári. Gylfi segir að endurnýjun skipaflotans sé hafin hjá félaginu.

„Flotinn hefur verið að eldast og það hefur raunar ekki verið fjárfest lengi í gámaskipum - í nýjum skipum. Við þurfum að yngja upp flotann og koma Lagerfoss er byrjunin á því,“ segir Gylfi.

Að lokinni vígsluathöfn bauðst almenningi að skoða nýjasta skipið í skipaflota okkar Íslendinga sem fjölmargir nýttu sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×