Innlent

Björt Framtíð á meira inni

BBI skrifar
Mynd/GVA
Guðmundur Steingrímsson, frambjóðandi Bjartrar Framtíðar, er ánægður með fylgið sem flokkurinn mælist með, en samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup hefur flokkurinn 12,3% fylgi og er því fjórði stærsti flokkur landsins. Guðmundur telur að flokkurinn eigi enn eitthvað inni.

„Við vorum að kynna listana okkar nú í desember og sýna hverjir eru í efstu sætunum í hverju kjördæmi. Mér sýnist að það hafi fallið í kramið," segir Guðmundur spurður um skýringar á fylgisaukningu síðasta mánaðar, en flokkurinn mældist með rétt rúm 8% fyrir mánuði síðan. „Fólk greinilega kann að meta það sem við erum að gera."

Guðmundur telur líka að áhersluatriði flokksins hitti í mark hjá fólki „Við erum að tala fyrir nokkuð annars konar stjórnmálum en fólk hefur upplifað á síðustu árum," segir Guðmundur. „Við boðum meiri samvinnupólitík en tíðkast hefur á kjörtímabilinu."

Guðmundur telur að flokkurinn eigi geti enn bætt við sig fylgi. „Við eigum eftir að sýna öll andlit," segir Guðmundur. „Ég held að við getum gert það sama á landsvísu og var hægt að gera í borginni. Þar náði nýtt afl, Besti flokkurinn, mjög miklu fylgi og hefur náð að breyta mikið til í pólitíkinni í borginni, og gert það af mikilli ábyrgð."

Þjóðarpúlsinn er mæling sem fór fram milli 28. nóvember og 28. desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×