Innlent

Björn Friðfinnsson látinn

Björn Friðfinnsson lögfræðingur og fyrrverandi ráðuneytisstjóri lést þann 11. Júlí síðastliðinn, 72 ára að aldri.

Björn átti að baki langan og farsælan starfsferil í opinberri stjórnsýslu. Hann starfaði sem ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneyti, sameinuðu viðskipta- og iðnaðarráðuneyti og í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Hann var einn af framkvæmdastjórum ESA (EFTA Surveillance Authority) í Brussel, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóri lögfræði-og stjórnsýsludeildar borgarinnar, fjármálastjóri Rafmagnsveitu Reykjavíkur, framkvæmdastjóri Kísiliðjunnar í Mývatnssveit og bæjarstjóri á Húsavík, formaður Almannavarnaráðs og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Björn gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, var stundakennari og prófdómari í opinberri stjórnsýslu og Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands og skrifaði meðal annars kennslubók í opinberri stjórnsýslu. Þá hélt hann fjölda fyrirlestra um Evrópurétt og skrifaði greinar í blöð og tímarit um fræði- og þjóðfélagsmál. Hann átti einnig sæti í stjórn Norræna fjárfestingabankans.

Meðfram starfi var Björn virkur í félagsmálum. Hann átti sæti í stjórn Rauða kross Íslands og var formaður flóttamannaráðs RKÍ á áttunda áratugnum þegar tekið var á móti hópum flóttamanna frá Víetnam og Póllandi. Hann hafði alla tíð lifandi áhuga á málefnum og velferð flóttamanna og aðstoðaði þá ötullega við aðlögun að íslensku samfélagi. Björn var virkur í Lionshreyfingunni og var formaður Landssambands sumarhúsaeigenda.

Eftirlifandi eiginkona hans er Iðunn Steinsdóttir kennari og rithöfundur. Börn þeirra eru þrjú, barnabörnin níu og barnabörnin tvö.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×