Innlent

Bjóða stuðning við krónuna eftir inngöngu

Semja þarf um hugsanlegan stuðning ESB við afnám gjaldeyrishafta í aðildarviðræðum við ESB.
Semja þarf um hugsanlegan stuðning ESB við afnám gjaldeyrishafta í aðildarviðræðum við ESB.
Semja þarf sérstaklega um vikmörk gengis íslensku krónunnar við evru meðan á upptöku evrunnar stæði í aðildarviðræðunum við ESB sem nú standa fyrir dyrum. Þá stæði Íslandi til boða stuðningur við krónuna frá Seðlabanka Evrópu en kanna þarf nánar hve mikill sá stuðningur gæti orðið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð sem birt var í gær í kjölfar rýnifundar í Brussel um efnahags- og peningamálakafla samningaviðræðnanna. Einnig þarf að semja um hugsanlegan stuðning ESB við afnám gjaldeyrishaftanna hér á landi.

Ríki sem ganga í ESB verða að taka mið af sameiginlegri efnahagsstefnu sambandsins og er þess vænst að ný aðildarríki taki þátt í myntsamstarfi Evrópu. Áður en ríki getur hins vegar tekið upp evruna þarf það að uppfylla Maastricht-skilyrðin svokölluðu. Eitt þeirra segir til um tveggja ára þátttöku í gjaldmiðilssamstarfi Evrópu (ERM II) sem er eins konar fordyri evrunnar.

Meðan á þátttöku í ERM II stendur er stefnt að gengisstöðugleika gagnvart evru með ákveðnum vikmörkum. Stöðugleiki gjaldmiðilsins er á ábyrgð seðlabanka hvers ríkis en jafnframt eru í boði takmarkaðar skammtímalánalínum frá Seðlabanka Evrópu. Búast má við því að nánari útfærsla á þessum stuðningi verði fyrirferðamikil þegar gengið verður frá efnahags- og peningamálakafla aðildarviðræðnanna.- mþl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×