Innlent

Bjarni Ben vill þjóðstjórn

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Formaður Sjálfstæðisflokksins vill mynda þjóðstjórn þvert á flokka í nokkra mánuði og boða svo til kosninga en flokkurinn kynnti í dag tillögur í atvinnumálum sem eiga að skapa 22 þúsund ný störf.

Sjálfstæðisflokkurinn kynnti í dag tillögur sínar um úrræði í atvinnumálum og málum skuldugra heimila undir heitinu „Gefum heimilum von." Þingflokkur sjálfstæðismanna í heild sinni hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á heimilin verði dregnar til baka að fullu á næstu tveimur árum. Einnig vilja sjálfstæðismenn að greiðsluaðlögunarúrræðin verði einfölduð verulega og rýmkuð frá því sem nú er. Þá vill flokkurinn að öllum sem þess óska standi til boða að lækka greiðslubyrði fasteignalána sinna um allt að helming næstu þrjú árin gegn lengri lánstíma.



Vilja auka þorskaflann um 35 þúsund tonn
Bjarni Benediktsson kynnti tillögurnar á blaðamannafundi í Valhöll í dag.Mynd/Fréttir Stöðvar 2
Flokkurinn kynnti tillögur sem miðað því að skapa 22 þúsund ný störf, en meðal þess sem flokkurinn vill gera í atvinnumálum er að auka þorskafla um 35.000 tonn og hverfa frá fyrningarleið í sjávarútvegi, greiða fyrir framkvæmdum vegna álvers í Helguvík og koma á orkufreku verkefni á Bakka, fara í arðbær verkefni í samvinnu við lífeyrissjóði, nota skattkerfið til að verja störf og mynda ný og afnema óhagkvæma skatta. Flokkurinn telur að fjölgun starfa muni bæta stöðu ríkissjóðs um 36 milljarða króna á næsta ári og um 33 milljarða króna árið 2012. Með þessu verði hægt að hverfa frá óæskilegum niðurskurði, eins og í menntakerfinu.

Bjarni, eruð þið í kosningaham? „Við teljum einfaldlega að það sé komið upp svo alvarlegt ástand og ákall um tillögur til úrbóta að við því varð að bregðast," segir Bjarni Bendiktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um hugmyndirnar sem kynntar voru í dag. Bjarni er þeirrar skoðunar að mynda eigi þjóðstjórn núna og boða síðan til kosninga í kjölfarið. „Það væri skynsamlegt fyrir menn að snúa bökum saman og starfa þvert á flokka í nýrri ríkisstjórn sem myndi taka að sér þessi stóru verkefni og starfa í skamman tíma. Síðan gæfist þjóðinni tækifæri til þess að kjósa upp á nýtt um nýja framtíð fyrir Íslendinga," segir Bjarni.




Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×