Innlent

Bjarni afþakkar boð um fund með efnahags-og viðskiptanefnd

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. vilhelm
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra ætlar ekki að koma á fund efnahags- og viðskiptanefndar og ræða framgöngu sína við birtingu skýrslu um umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum.  Píratar gagnrýna ákvörðun Bjarna og segja hana vega að eftirlitshlutverki Alþingis. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki Pírata.

Ástæður þess að Bjarni ætlar ekki að koma á fund nefndarinnar eru þær að hann telur sig ekki hafa meira um málið að segja á þessu stigi, þar sem hann hafi þegar tjáð sig um málið opinberlega. Hann sé hins vegar reiðubúinn til þess að taka þátt í umræðum um málið á vettvangi Alþingis eftir að þing kemur saman, 24. janúar næstkomandi.

„Mér finnst algjörlega ótækt að forsætisráðherra vilji ekki gera grein fyrir verkum sínum fyrir nefndinni. Með slíkri neitun vegur hann að eftirlitshlutverki Alþingis“ segir í svari Smára McCarthy, fulltrúa Pírata í efnahags-og viðskiptanefnd til nefndarmanna þegar svör Bjarna bárust henni. Smári segir jafnframt að svör til fjölmiðla séu allt annað en viðunandi svör til þingsins.

Þá segir í tilkynningunni að mikilvægt sé að ráðherra svari fyrir verk sín gagnvart þinginu. Þingflokkur Pírata hyggst funda um málið á morgun og tekur Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata undir kröfur Smára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×