Handbolti

Bjarki með sex mörk í öruggum sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bjarki Már Elísson skilaði af sér góðu dagsverki í öruggum átta marka sigri Füsche Berlin á Ribnica í EHF-bikarnum á heimavelli í dag en Bjarki var með sex mörk í leiknum sem lauk með 38-30 sigri Füsche Berlin.

Berlínarrefirnir voru búnir að vinna alla leiki A-riðilsins fyrir leikinn og gátu með sigri endanlega tryggt sæti sitt í átta liða úrslitum en aðeins tvö ár eru síðan Berlínarrefirnir fögnuðu sigri í keppnini.

Heimamenn náðu snemma stjórn á leiknum og komust í 8-2 en það setti tóninn fyrir það sem eftir lifði leiksins. Gestirnir frá Slóveníu náðu að halda þessu í 5-6 mörkum framan af en ógnuðu aldrei forskoti heimamanna.

Var munurinn aðeins fjögur mörk í hálfleik en Berlínarmenn settu fótinn á bensíngjöfina og gerðu út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks. Fór munurinn þegar mest var upp í tíu mörk en sigurinn var aldrei í hættu.

Bjarki skilaði sex mörkum fyrir lið sitt en Mattias Zachrisson var markahæstur í liði Füsche með níu mörk en Berlínarrefirnir mæta St. Raphael í lokaumferðinni í Frakklandi á laugardaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×