Handbolti

Bjarki Már á að leysa vítaskyttuvandræði Füchse Berlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson. Mynd/Heimasíða Eisenach
Bjarki Már Elísson verður aðalvítaskytta Füchse Berlin á næsta tímabili og er honum ætlað að bæta slæma vítanýtingu liðsins frá síðustu leiktíð.

„Það var okkur ekki endilega til tekna að fá víti á síðasta tímabili,“ sagði Bob Hanning, framkvæmdastjóri Füchse Berlin, í samtali við Berliner Zeitung. Tvö víti fóru yfirleitt forgörðum í leikjum liðsins - stundum fleiri.

Bjarki Már kom til Fücshe Berlin í sumar sem markakóngur þýsku B-deildarinnar en hann lék þá með Eisenach. Hann var vítaskytta liðsins og nýtingin hans meira en 85 prósent. „Ég vona að með honum þá fáum við meiri stöðugleika í vítanýtingunni okkar,“ sagði Hanning.

Sjálfur sagði Bjarki Már að honum hafi gengið vel að skora af vítalínunni en að hann muni mæta betri markvörðum í þýsku úrvalsdeildinni en B-deildinni. „Ég mun leggja enn meira á mig á æfingum til að styrkleikar mínir nýtist líka hjá Füchse Berlin,“ sagði hann og bætti við að hann hefði verið vítaskytta í sínum liðum síðan hann var fimmtán ára gamall.

Erlingur Richardsson tók við þjálfun Füchse Berlin og starfaði með Bjarka Má hjá HK á sínum tíma. Hann lagði ríka áherslu á að fá Bjarka til þýsku höfuðborgarinnar.


Tengdar fréttir

Eisenach upp í efstu deild

Eisenach, lið Bjarka Más Elíssonar og Hannesar Jóns Jónssonar, tryggði sér sæti í efstu deild á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×