Erlent

Birtu myndband af lögreglumönnum skjóta táningsstúlku til bana

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty og Facebook
Lögregla í Texas í Bandaríkjunum hefur birt myndband af því þegar þrír lögreglumenn skutu hina 17 ára gömlu Kristianu Coignard til bana í anddyri lögreglustöðvar. Fjölskylda hennar hefur mótmælt atvikinu harðlega og segir hana hafa átt við geðræn vandamál að stríða.

Lögreglan segir lögregluþjónana þrjá hafa brugðist rétt við þegar stúlkan réðst að öðrum þeirra með stóran hníf. Þá segir lögreglan að skot úr rafbyssu hafi ekki stöðvað hana.

Atvikið hefur vakið mikla reiði og kemur í kjölfar fjölda skipta sem lögreglan í Bandaríkjunum hefur skotið fólk til bana.

„Allir lögreglumenn bera rafbyssur og kylfur,“ hefur Sky News eftir lögreglustjóranum Don Dingler. „Ég tel að þið munið sjá á þessu myndbandi að tíminn hafi skipt máli í þessu tilviki. Lögregluþjónarnir höfðu ekki tíma til að beita öðrum tólum.“

Samkvæmt fjölskyldu stúlkunnar átti hún við geðræn vandamál að stríða og hafði tvisvar sinnum reynt að fremja sjálfsmorð.

Á myndbandinu sést að hún kom inn á lögreglustöðina og bað um hjálp. Talskona lögreglunnar sagði að Coignard hafi ekki viljað segja af hverju hún vildi hjálp. Þegar lögreglumaður kom til hennar lyfti hún upp höndum en í öðrum lófa hennar stóð: „Ég er með byssu“.

Þá byrja þau að kljást sem endar með því að lögreglumaðurinn nær henni niður í gólfið. Hann heldur henni niðri, en hörfar þegar hún dregur upp hníf.

Tveir aðrir lögregluþjónar standa nú nálægt henni og annar miðar á hana byssu og hinn rafbyssu. Þá hleypur hún í áttina að einum þeirra. Einn lögregluþjónninn skýtur hana með rafbyssu, áður en hinir skjóta hana til bana.

Lögregluþjónarnir þrír eru nú í launuðu leyfi á meðan málið er rannsakað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×