Viðskipti innlent

Birna Einarsdóttir hlaut FKA viðurkenninguna 2016

Sæunn Gísladóttir skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA, Birna Einarsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður FKA, Birna Einarsdóttir og Ragnheiður Elín Árnadóttir. Vísir/Anton
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hlaut FKA viðurkenninguna 2016 í Norðurljósasal Hörpu síðdegis í dag. Á hátíðinni heiðraði FKA þrjár athafnakonur.

Fram kemur í tilkynningu að Birna útskrifaðist sem stúdent frá Verzlunarskóla Íslands, viðskiptafræðingur frá HÍ og lauk MBA prófi í viðskptafræði frá Háskólanum í Edinborg 1996. Þá hafði hún þegar víðtæka reynslu að baki úr atvinnulífinu; hafði starfað sem framkvæmdastjóri Íslenskra getrauna, á markaðsdeild Íslenska útvarpsfélagsins og sem yfirmaður markaðssviðs Íslandsbanka. Árið 1998 flutti hún til Skotlands og starfaði í markaðsdeild The Royal Bank of Scotland til ársins 2004 er hún sneri aftur heim og hóf störf á þróunarsviði Glitnis. Hún var síðan ráðin bankastjóri Nýja Glitnis í byrjun október 2008.

Birna var innanbúðar í bankakerfinu á einhverjum mestu og erfiðustu umbrotatímum í íslensku efnahagslífi. Hún tók við stjórnartaumunum þegar óvissan var allsráðandi í þjóðfélaginu og starfsfólk jafnt sem viðskiptavinir uggandi um sinn hag. Birna einsetti sér frá upphafi að þjappa starfsmönnum bankans saman og telja í þá kjark. Saman lögðu þau sig síðan fram um að greiða úr þeim vandamálum sem fyrir lágu. Þannig ávann hún sér virðingu og traust viðskiptavina og samstarfsfólks sem lýsir henni sem metnaðarfullri en mannúðlegri, stefnufastri en sveigjanlegri í senn.

Undanfarin ár hefur Birna verið óeigingjörn við að miðla reynslu sinni til bæði karla og kvenna sem vilja láta til sín taka í viðskiptum eða annars staðar í samfélaginu. Sérstaka áherslu hefur hún lagt á starfsþróun kvenna innan Íslandsbanka og hafa konur innan bankans m.a. haft aðgang að lærimeistara (mentor) sem ætlað er að efla þær í atvinnulífinu.



Kolbrún Hrafnkelsdóttir hlaut Hvatningarviðurkenningu.Vísir/Anton
Kolbrún Hrafnkelsdóttir hlýtur Hvatningarviðurkenningu

Hvatningarviðurkenningu FKA hlaut Kolbrún Hrafnkelsdóttir, forstjóri og stofnandi Florealis; fyrirtækis sem sérhæfir sig í þróun og markaðssetningu á skráðum jurtalyfjum. Kolbrún er lyfjafræðingur að mennt og hefur langa reynslu af rannsóknum og þróun lyfja. Að loknu mastersnámi fór hún að vinna hjá litlu frumkvöðlafyrirtæki í þeim geira. Það var þar sem áhuginn kviknaði á að byggja upp eigið fyrirtæki – en fyrst vildi hún verða sér úti um sem víðtækasta reynslu og þekkingu. „Það er mjög lærdómsríkt að vinna í stærri og þroskaðri fyrirtækjum“ segir hún, „og þá reynslu má ekki vanmeta.“ Sjálf tók hún m.a. að sér verkefnastjórn hjá Össuri, vann á rannsóknarstofu á spítala í Hollandi og sem hópstjóri þróunarverkefna hjá Actavis í 6 ár. Það var svo árið 2012 sem Kolbrún ákvað að gerast frumkvöðull; stofna félag utan um nýja grein lyfjafræðinnar hér á landi; skráð jurtalyf sem byggja á vísindalegum grunni.

Kolbrún Hrafnkelsdóttir er brautryðjandi á þessu sviði hérlendis og fyrirmynd margra ungra kvenna í lyfjageiranum. Aðspurð viðurkennir hún að sjálf eigi hún sér fyrirmynd í faginu; Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur, fyrrum forstjóra Actavis. „Hún er nú stjórnarformaður Florealis og það er ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt að vinna með henni“ segir hún. „Ég er sannfærð um að það skipti miklu máli fyrir ungar konur að hafa sterka kvenleiðtoga á öllum sviðum  samfélagsins.“ 

Að sögn Kolbrúnar eiga jurtalyf sér langa sögu á meginlandi Evrópu. Þar beita menn sömu vísindalegu rannsóknaraðferðum við þróun þeirra og hefðbundinna lyfja. Nú hafa reglugerðir Evrópusambandsins varðandi skráningu og gæðastaðla jurtalyfja einnig verið innleiddar hér á landi. Þessu fagnar Kolbrún og telur þessar breyttu reglur gera auknar kröfur til framleiðenda um fagleg vinnubrögð og auka öryggi neytenda. Florealis sérhæfir sig í þróun jurtalyfja úr virkum náttúruefnum. Stefnt er að skráningu og sölu jurtalyfja fyrirtækisins á Evrópumarkað ... „en fyrst ætlum við að einbeita okkur að Íslandi og Norðurlöndunum; byggja upp sterkt vörumerki á þeim markaði“ segir Kolbrún Hrafnkelsdóttir lyfjafræðingur og forstjóri Florealis.   





Sigrún Vilhjálmsdóttir hlaut þakkarviðurkenningu.
Sigríður Vilhjálmsdóttir hlýtur þakkarviðurkenningu

Þakkarviðurkenningu FKA hlaut Sigríður Vilhjálmsdóttir, fjármálastjóri og eigandi Hótel Geysis og ferðaþjónustunnar þar. Nöfn Sigríðar og eiginmanns hennar Más Sigurðssonar á Geysi eru samofin sögu ferðaþjónustu á Íslandi. Löngu áður en farið var að líta á hana sem alvöru atvinnugrein tóku þau daglega á móti fjölda innlendra og erlendra gesta og buðu upp á gistingu, mat og fræðslu. Sannfærð um að ferðamönnum ætti eftir að fjölga til muna á komandi árum hafa þau af mikilli elju og þrautseigju byggt upp glæsilega aðstöðu á Geysi; hótel, safn, verslun og þrjá veitingastaði.

Að sögn Sigríðar höfðu ekki allir sömu trú á því að ferðaþjónusta á Geysi gæti orðið arðbær. „Árið 1987 áttum við bara 150 stóla í 600 manna sal – og tvær 60 bolla kaffikönnur“ rifjar hún upp. „Einhver benti mér á að ég ætti að geta fengið lán fyrir stærri könnu og nokkrum kollum – svo ég lét á það reyna. Bankinn velti þessu lengi fyrir sér en hafnaði svo beiðninni. Þeir höfðu engan áhuga.“ Sigríður leitaði þá til aðila sem seldu þessa hluti og þeir sáu til þess að þessir 600 gestir gætu bæði fengið tíu dropa og tyllt sér á meðan.

Ferðaþjónustan er fjölskyldufyrirtæki og kemur öll fjölskyldan að ákvörðunum sem lúta að framtíðarskipulagi og stækkunaráformum. Hlutirnir hafa gerst hratt á Geysi og segir Sigríður ótrúlegt hvað mikið hafi breyst síðan 1972 þegar hún kom fyrst að rekstri á svæðinu. „Ferðamönnum byrjaði að fjölga upp úr 1980“ segir hún „og 1986 hófum við rekstur á hótelinu. Síðan höfum við stækkað þetta í skrefum og erum hvergi nærri hætt; erum t.d. nú að reisa nýtt hótel á svæðinu.“ 

Sigríður Vilhjálmsdóttir er ásamt eiginmanni sínum brautryðjandi á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Hún hefur lagt metnað sinn í að byggja upp glæsilegt fyrirtæki og fyrsta flokks aðstöðu fyrir ferðamenn á Geysi og er þannig fyrirmynd fyrir þá fjölmörgu sem hyggjast hasla sér völl á sviði ferðamála í framtíðinni.


Tengdar fréttir

Hrekja mýtuna um að konur segi nei

Hulda Bjarnadóttir hefur verið framkvæmdastjóri FKA í fimm ár. Hún segist hafa upplifað mikla vitundarvakningu á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×