Golf

Birgi tókst ekki að fylgja eftir góðum fyrsta hring

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Birgir varð Íslandsmeistari í höggleik 2014 og 2013 en hér heldur hann á titlinum 2014.
Birgir varð Íslandsmeistari í höggleik 2014 og 2013 en hér heldur hann á titlinum 2014. Vísir/Daníel
Birgir Leifur Hafþórsson náði ekki að fylgja eftir góðum fyrsta hring á GANT mótinu í Finnlandi í dag en Birgir Leifur lauk leik á 73 höggum í dag, alls tveimur höggum undir pari eftir að hafa leikið á fjórum höggum undir pari í gær.

Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni sem er næst-sterkasta atvinnumannamótaröð kylfinga í Evrópu. Var Birgir Leifur í fjórða sæti ásamt öðrum kylfingum eftir fyrsta dag en hann féll niður í 25. sæti í dag.

Birgir Leifur fór vel af stað á fyrsta hring og lauk leik á fjórum höggum undir pari en hann lék sérstaklega vel á fyrri níu holum vallarins.

Birgir var á einu höggi undir pari eftir fyrri níu holur dagsins en hann fékk þrjá fugla, tvo skolla og fjögur pör á fyrstu níu holum dagsins.

Á seinni níu holunum lenti hann þó í töluvert meiri vandræðum, sömu holum og hann lék afar vel á deginum áður. Fékk fjóra skolla, fjögur pör og aðeins einn fugl á seinni níu holum dagsins.

Eins og staðan er núna kemst Birgir Leifur í gegn um niðurskurðinn en sextíu efstu kylfingarnir komast í gegn um niðurskurðinn. Þegar þetta er skrifað miðast niðurskurðurinn við parið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×