Innlent

Biður forseta þings að kenna forsætisráðherra mannasiði

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Að vera með forsætisráðherra sem stýrir umræðum um stjórnmál með þeim hætti sem hann hér gerir hefur forgöng um það að gera lítið úr öðrum stjórnmálamönnum og því sem þeir segja hér í ræðustól með því að gefa það í skyn að þeir fari endalaust með rangt mál er fyrir neðan allar hellur,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, þingkona Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag en þá talaði hún um viðbrögð Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um fjárlagafrumvarpið á Alþingi.

Sigmundur Davíðs Gunnlaugsson sagði á Alþingi í dag að barnabætur verða ekki lækkaðar í fjárlögum næsta árs eins og til stóð.

„Hér var komið inn á það af hæstvirtur fjármálaráðherra í fjölmiðlaviðtali á sunnudaginn að það stæði til að lækka tillögur til vaxtabóta og barnabóta,“ sagði Katrín og spurði síðan hvort fjármálaráðherra væri að fara með rangt mál.

„Formaður fjárlaganefndar sagði nákvæmlega það sama um þróunaraðstoðina, barnabæturnar og vaxtabætur í löngu viðtali sem ég sat með henni í gærmorgun. Þar sagði hún þetta vera stefna ríkisstjórnarinnar.“

„Að sitja svo undir því aftur og aftur að við stjórnmálamenn, aðrir en hæstvirtur forsætisráðherra,  séum að fara með rangt mál er óþolandi og ég fer fram á það að hæstvirtur forseti grípi í taumana og kenni mönnum mannasiði og kenni mönnum umburðarlyndi og þolinmæði fyrir því að mæta gagnrýnum skoðunum.“

Hér að ofan má sjá myndband af ræðu Katrínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×