Lífið

Berum ekki skömmina áfram

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
„Það er óþolandi hvernig umræðan um ofbeldi gegn konum snýst ítrekað og endurtekið um það hvernig konur og stelpur þurfi nú bara að passa sig aðeins betur; þær ættu auðvitað ekki að vera einar á ferli og hvað þá seint eða um nætur, ekki undir áhrifum eða klæddar eins og druslur,“ segir Sara.
„Það er óþolandi hvernig umræðan um ofbeldi gegn konum snýst ítrekað og endurtekið um það hvernig konur og stelpur þurfi nú bara að passa sig aðeins betur; þær ættu auðvitað ekki að vera einar á ferli og hvað þá seint eða um nætur, ekki undir áhrifum eða klæddar eins og druslur,“ segir Sara. Vísir/Vilhelm
„Ég var ekki heima þegar 14 ára dóttir mín sá fréttir af því að lík Birnu Brjánsdóttur væri fundið. Þessi frétt triggeraði áfallið sem dóttir mín varð fyrir seint í sumar, kvöldið fyrir skólasetningu, þegar einhver réðst aftan að henni þar sem hún var að ganga heim, greip fyrir vitin á henni; munn og nef, axlir og handleggi, og dró hana þannig inn í runna – lamaða af ótta. Það var þá sem hún hélt að hún yrði drepin – og þannig var hún rænd.

Hún var nefnilega rænd frelsinu sínu þessar sekúndur sem hún lá frosin og mállaus í moldinni og sá fjölskyldumeðlimum og vinum bregða fyrir hugskotssjónum sínum í sekúndubrotum – hún var að kveðja okkur. Henni fannst eins og hún færi út úr líkamanum og sæi sjálfa sig dána. Í myrkrinu á Klambra­túni kvöld eitt í ágúst,“ segir Sara Stef. móðir fjórtán ára stúlku sem varð fyrir árás á Klambratúni á síðasta ári.

Maðurinn sem réðst á dóttur hennar er ekki fundinn.„Hún var heppin. Og það var það sem hún endurtók aftur og aftur þegar hún heyrði fréttina um líkfund Birnu. Hún var nefnilega raunverulega mjög heppin. Samt var ráðist á hana af ókunnugum manni sem hefur enn ekki fundist. Samt er hún heppin. Hann er kannski líka að velja sér ís í Bónus eða er stundum samferða henni í strætó. Við vitum það ekki og munum aldrei vita.“

Þegar dóttir Söru heyrir eða sér fréttir af ofbeldi gagnvart konum þá rifjast upp þær sekúndur sem hún hélt hún yrði drepin. „Hún man að hún er ekki frjáls í raun og veru og hún man að það er kannski tilefni til að óttast og vera hrædd,“ segir Sara.

Ósanngjarnt í garð beggja kynja

Sara segir það að ala á ótta ósanngjarnt gagnvart konum og minnihlutahópum, líka þeim meirihluta karlmanna sem mun aldrei ráðast á konur.

„En af hverju viljum við búa í samfélagi sem elur á ótta og hræðslu? Hver hefur hagsmuni af því að hluti borgaranna sé hræddur og óttasleginn? Ég bara spyr? Borgar sig að ala á ótta hjá ákveðnum hópum til að geta stýrt samfélaginu með góðu móti – ég skil það ekki? Hentar það samfélaginu sem heild að hópur borgara sé ítrekað látinn taka á sig skömm og sársauka? Hvernig þá? Svona samfélag er ekki bara ósanngjarnt gagnvart konum og minnihlutahópum heldur er þetta líka ósanngjarnt gagnvart þeim meirihluta karlmanna sem mun aldrei ráðast á konur eða áreita þær með nokkrum hætti. Hugmyndin um hinn hættulega, kynferðislega stjórnlausa og árásargjarna karlmann er hugmynd sem keyrir samfélag og hagkerfi ótta og hræðslu; eftirlitsmyndavéla, piparúða og sjálfsvarnarnámskeiða fyrir konur.“

Sara segir óþolandi að umræða um ofbeldi snúist ítrekað um það að konur og stelpur þurfi að gæta sín. „Þannig er þetta óþolandi samfélag. En það er ekki bara ofbeldið sem er óþolandi. Það er óþolandi hvernig umræðan um ofbeldi gegn konum snýst ítrekað og endurtekið um það hvernig konur og stelpur þurfi nú bara að passa sig aðeins betur; þær ættu auðvitað ekki að vera einar á ferli og hvað þá seint eða um nætur, ekki undir áhrifum eða klæddar eins og druslur.

Í þessu óþolandi samfélagi er konum og stelpum nefnilega uppálagt að vera almennilegar og ekki kalla yfir sig sársaukann og skömmina. Þær geta svo auðveldlega sleppt því að lenda í kynbundnum eða kynferðislegum árásum ef þær bara vanda sig,“ segir Sara og segir þurfa að ráðast að rót kynbundins ofbeldis.

„Konur hafa of lengi verið hluti af hagkerfi karla en það kerfi fjallar ekki bara um vald þeirra yfir konum heldur líka aðgang þeirra að þeim. Það er þar sem kynferðisofbeldið á sér stað; þegar karlar upplifa konur sem hluta af rétti sínum í samfélaginu. Þetta valdakerfi er orðið gamalt og lúið og því miður eru það svona hræðilegir atburðir eins og árásin á Birnu og morðið á henni sem verða notaðir til að kynda undir umræðunni um að konur þurfi að draga sig í hlé, láta lítið fyrir sér fara og bera ábyrgðina og skömmina ef á þær er ráðist. Ítrekað og endurtekið.

Það er óþolandi samfélag sem reynir ekki að bæta sig. Kynbundið ofbeldi er reglulegt og kerfisbundið í samfélaginu. Birna er dæmi um það. Við skulum ekki vera sammála um að konur eigi að láta sér blákalt morð á ungri konu að kenningu verða. Við skulum ekki vera sammála um að konur og stelpur geti ekki gengið einar um á kvöldin, að þær þurfi að hafa lyklana á milli fingranna eða þykjast tala í símann, að þær þurfi bara að fara á sjálfsvarnarnámskeiðið og hafa piparúðann tiltækan því þannig geti þær verið frjálsar; innan ákveðinna marka og ef þær bara taka á sig ábyrgðina.

Við skulum ekki vera sammála um að strákar og karlar séu með stjórnlausa kynhvöt og árásárgjarnir. Við skulum ekki vera sammála um að strákar og karlar valdi konum ótta eða öfugt. En sem stendur erum við skilyrtar af því ofbeldi sem konur og stelpur eru að verða fyrir hvarvetna í veröldinni því það er daglegt og það er raunverulegt. Elsku stelpur og elsku strákar, Birna má ekki verða smættuð niður í óttann og piparúðann – berum ekki skömmina áfram heldur látum Birnu verða ljósið sem leiðir okkur út úr þessum ógöngum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×