Innlent

Barna- og vaxtabætur lækkað um milljarða á þessu kjörtímabili

Sveinn Arnarsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson,varaformaður fjárlaganefndar Alþingis
Guðlaugur Þór Þórðarson,varaformaður fjárlaganefndar Alþingis vísir/vilhelm
Barnabætur hafa lækkað um 200 milljónir að raunvirði á þessu ári og vaxtabætur hafa lækkað um tæplega 3,3 milljarða króna.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, gagnrýnir forgangsröðun stjórnvalda en varaformaður fjárlaganefndar fagnar þessum tölum.

Árið 2016 voru greiddar barnabætur 10,8 milljarðar samanborið við rúma 11 milljarða árið 2013. Árið 2013 var níu og hálfum milljarði varið í vaxtabætur frá ríkinu en þær eru 6,2 milljarðar í ár. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir þetta fagnaðarefni.

Katrín Jakobsdótttir, formaður Vinstri grænnavísir/daníel
„Nú er það þannig að skuldir heimilanna hafa lækkað mikið á þessu kjörtímabili og við höfum forgangsraðað til þess að lækka skuldir heimilanna. Það hefur tekist. Í takt við hækkandi laun og minnkandi skuldsetningu heimilanna lækka því vaxtabætur frá ríkinu. Því ættum við að fagna þessum árangri. Vaxtabætur eru í sjálfu sér slæmt form af stuðningi og ýta undir skuldsetningu,“ segir Guðlaugur Þór.

Katrín Jakobsdóttir er ekki sammála fullyrðingum Guðlaugs Þórs og segir þarna kristallast muninn á hægri og vinstri stjórnum. 

„Við gagnrýndum þetta í fjárlagavinnunni. Hér er verið að skerða bætur til fólks án pólitískrar umræðu og breyta skattkerfinu. Þessar breytingar koma því mest niður á millitekjuhópnum,“ segir Katrín. „Hér er verið að að draga verulega úr stuðningi við fólk og barnafjölskyldur og umhugsunarefni hvaða skilaboð verið er að senda. Á meðan veiðigjöld og hátekjuskattur lækka og fjármagnstekjuskattur hækkar mun minna en annar skattur er verið að auka á misskiptinguna.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. júlí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×