Erlent

Barn sem fæddist um borð í flugvél nefnt í höfuðið á flugfélaginu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Myndin er ekki af Jet Star litla.
Myndin er ekki af Jet Star litla. Vísir/Getty
Í síðustu viku fæddist lítið barn um borð í flugvél Jetstar Asia sem var á leið frá Singapore til Myanmar. Móðir barnsins, sem var rétt tæplega þriggja kílógramma þungur drengur, nefndi hann í höfuðið á flugfélaginu sem hún flaug með og heitir drengurinn því Saw Jet Star. Þó er móðirin sjálf einnig með Star í nafni sínu og því hentaði nafnið sérstaklega vel.

Fæðingin gekk vel en áhöfn og þrír læknar sem voru á staðnum sáu til þess að Saw Jet Star kom heill á húfi í heimin.

Ferðalagið frá Singapore til Myanmar er þrír tímar og fór fæðingin af stað öllum að óvörum.

Reglur Jetstar Asia kveða á um að læknir verði að skrifa upp á vottorð fyrir konur sem komnar eru 28 vikur eða meira á leið ef þær vilja fljúga með flugfélaginu. Þá er konum sem komnar eru 40 vikur á leið heimilt að fljúga ef flugferðin er undir fjórum tímum. 

Bæði móður og barni heilsast vel í dag en Saw litli er fyrsta barnið sem fæðist um borð í vél frá flugfélaginu. Jetstar þakkar læknunum sem stukku til kærlega fyrir aðstoðina á Facebook síðu sinni. Samkvæmt frétt CNN klöppuðu farþegar vélarinnar þegar barnið kom í heiminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×