Innlent

Baráttan gegn misnotkun lyfja á ekki að bitna á sjúklingunum

JHH skrifar
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.
Margir þeirra fullorðnu einstaklinga sem hafa fengið lyf við ADHD sjúkdómnum hafa öðlast nýtt líf og algjörlega nýjar forsendur til að takast á við verkefni sem þeir gátu ekki tekist á við án lyfjanna. Þetta sagði Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefnar, á Alþingi í dag.

Tilefni ummæla hennar eru þau í texta í fjárlagafrumvarpinu, sem skrifað er í fjármálaráðuneytinu, kemur fram að til stendur að hætta þátttöku ríkisins í greiðslu ADHD lyfja fyrir fullorðna. „Af texta fjárlagafrumvarpið er að skilja svo að hætta eigi slíkri niðurgreiðslu, ‟ sagði Sigríður Ingibjörg. Samkvæmt sínum upplýsingum frá velferðarráðuneytinu stæði hins vegar alls ekki til að hætta niðurgreiðslunni. Engu að síður þyrfti að fá botn í málið og því ætlar velferðarnefndin að ræða málið á fundi sínum í fyrramálið.

„Nú er það svo að margir þeirra fullorðnu einstaklinga sem taka lyf við ADHD sjúkdómnum hafa öðlast nýtt líf og algjörlega nýjar forsendur til að takast á við verkefni, sem auðvelt er fyrir flest fólk að takast á við án lyfjanotkunar. Í þessum hópi eru meðal annars einstaklingar sem hafa dottið úr skóla einhvern tímann á skólagöngunni og þurft að berjast og byggja sig upp eftir fullkomið niðurbrot, vegna þess að án greiningar voru þeir taldir vandræðagemlingar og fengu ekki að njóta þeirrar hæfileika sem þeir búa að,‟ sagði Sigríður Ingibjörg.

Sigríður Ingibjörg sagði að velferðarnefnd tæki málið mjög alvarlega. „Ef það á að berjast gegn misnotkun lyfja á ekki að beina henni gegn þeim sem fengu lyfin á grundvelli greininga og eru að fá þessi lyf niðurgreidd heldur á að beina þeim að þeim læknum sem ávísa þessum lyfjum ranglega á þá sem ekki þurfa á þeim að halda," sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×