Erlent

Barack Obama berst gegn hnatthlýnun

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Barack Obama ætlar að berjast gegn loftslagsbreytingum.
Barack Obama ætlar að berjast gegn loftslagsbreytingum. nordicphotos/afp
„Baráttan við loftslagsbreytingar mun vernda hagkerfi þjóðarinnar, stuðla að öryggi hennar og heilsu,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti þegar hann kynnti fyrirhugaðar aðgerðir sínar í loftslagsmálum í gær. Áætlun forsetans miðar að minni útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Áætlun Obama kallast Clean Power Plan, eða áætlun um græna orku.

Áform forsetans urðu strax að pólitísku bitbeini þeirra sem sækjast eftir útnefningu annars vegar Demókrataflokksins og hins vegar Repúblikanaflokksins til forsetaframboðs, en kosið verður um eftirmann Obama í nóvember á næsta ári.

Áætlunin miðar að því að hafa dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 32 prósent árið 2030, en útblásturinn hefur ekki verið meiri í 800.000 ár.

Frambjóðandaefni demókrata lofuðu áætlunina og sögðu hana góða leið til að takast á við loftslagsbreytingar. Frambjóðandaefni repúblikana, til dæmis Scott Walker, Jeb Bush og Marco Rubio, sögðu hana hins vegar til marks um of mikil ríkisafskipti sem muni draga úr sköpun nýrra starfa og hækka rafmagnsreikninga heimila. Walker sagðist ætla að draga lögin til baka yrði hann kosinn forseti. Þá sagði Bush hugmyndir forsetans afleitar fyrir almenning í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×