Viðskipti innlent

Bankasýslan stendur við umsögn sína um afskipti ráðuneytisstjóra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, og Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála-og efnahagsráðuneytinu. vísir
Bankasýsla ríkisins birtir í dag frétt á heimasíðu sinni þar sem stofnunin áréttar að hún standi við það sem fram kemur í umsögn stofnunarinnar um afskipti ráðuneytisstjóra fjármála-og efnahagsráðuneytis.

Fram kom í fjölmiðlum í gær að forstjóri Bankasýslunnar, Jón Gunnar Jónsson, teldi að ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, Guðmundur Árnason, hefði brotið lög þegar hann hafði tvívegis samband við forstjórann síðasta sumar og reyndi að hafa áhrif á val á stjórnarformanni í sameinuðum sparisjóði Bolungarvíkur og Norðurlands.

Þá beindi ráðuneytisstjórinn jafnframt þeim tilmælum til forstjórans að hann beitti sér fyrir því að umrætt fyrirtæki frestaði stjórnarfundi.

Sjá einnig: „Sjálfsagt og eðlilegt“ að koma áhyggjum Bolvíkinga á framfæri við Bankasýsluna

Fjármálaráðuneytið hafnaði þessum ásökunum með öllu í gær en í skriflegu svari ráðuneytisins til fréttastofu kom fram að fjármálaráðherra hefði viðrað áhyggjur Bolvíkinga af fyrirhugaðri sameiningu við ráðuneytisstjóra og beðið hann um að þeim á framfæri við forstjóra Bankasýslunnar.

Það er í tilefni af þessu svari ráðuneytisins sem Bankasýslan áréttar nú að stofnunin standi við umsögn sína um afskiptin.

Í fréttinni á heimasíðunni segir að ljóst sé „að þau afskipti ráðuneytisstjórans sem Bankasýsla ríkisins víkur að í umsögn sinni falla ekki undir þau heimilu afskipti sem lög gera ráð fyrir, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 2. gr. laganna.  Þaðan af síður hefði Bankasýslu ríkisins verið heimilt að verða við beiðnum ráðuneytisstjórans að því leyti sem þær fælu í sér óeðlileg afskipti af starfsemi umrædds fjármálafyrirtækis í andstöðu við verkaskiptingu á vettvangi stjórnar þess einkaréttarlega fyrirtækis.“


Tengdar fréttir

Forstjóri Bankasýslunnar telur ráðuneytisstjóra hafa brotið lög

Seinasta sumar hafði Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, tvívegis beint samband við Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslu ríkisins og reyndi að hafa áhrif á val á stjórnarformanni íslensks fjármálafyrirtækis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×