Viðskipti innlent

Bankarnir skili ríkinu 390 til 440 milljörðum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Eigin fé Íslandsbanka og Landsbankans nemur 462,8 milljörðum króna, en þrettán prósenta eign ríkisins í eigin fé Arion banka er 25,1 milljarður króna.
Eigin fé Íslandsbanka og Landsbankans nemur 462,8 milljörðum króna, en þrettán prósenta eign ríkisins í eigin fé Arion banka er 25,1 milljarður króna. Samsett mynd
Eðlilegur afsláttur af eigin fé bankanna við sölu ríkisins væri tíu til tuttugu prósent, í stað 40 prósenta sem tíðkast um þessar mundir í Evrópu. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Capacent. Miðað við þetta nemur virði hlutar ríkisins í bönkunum 390 til 440 milljörðum króna.

Fram kemur í greiningunni, sem ber yfirskriftina Bankablús: „Maraþon í yfirvikt“, að gríðarlegir fjármunir ríkisins liggi í bönkunum. Eigin fé Íslandsbanka og Landsbankans nemi 462,8 milljörðum króna og 13 prósenta hlutur ríkisins í eigin fé Arion banka sé 25,1 milljarður króna.

„Samtals hefur ríkið því 487,9 milljarða króna bundna í bönkunum. Áætlaður kostnaður við byggingu Landspítalans nemur um 85 milljörðum króna og því nema fjármunir sem eru bundnir í bönkunum verðmæti sex Landspítala,“ segir í greiningunni. Miklu skipti hvaða verð fáist fyrir bankana. „Ef gefinn er 10 prósenta afsláttur af eigin fé bankanna er það um 48,8 milljarðar króna, ríflega hálfur Landspítali.“

Bent er á að verð banka ráðist af undirliggjandi rekstri og verðkennitölum annarra banka. „Ein ástæða fyrir því að verð banka liggur lægra en það eigið fé sem bundið er í honum er að arðsemi rekstrarins er lægri en sú arðsemiskrafa sem gerð er til rekstrarins.“

Bornar eru saman lykiltölur úr rekstri banka víðsvegar úr Evrópu, en þar er miðað við að gefinn sé 40 prósenta afsláttur af eigin fé banka. Í umhverfi þar sem svo mikill afsláttur sé gefinn virðist tæplega rétti tíminn til að selja íslensku bankana. „Hins vegar er nær ómögulegt að sjá fyrir verðþróun á mörkuðum og hvenær rétti tíminn sé kominn. Vel má rökstyðja að það sé varla verjandi að ríkið liggi með svo mikla fjármuni í bankakerfinu.“ Bæði myndu fjármunirnir nýtast annars staðar og svo fylgi banka­rekstri áhætta. „Ekki ætti að þurfa að minna íslenska þjóð á bankahrunið.“

Í greiningunni er bent á að arðsemi banka af kjarnarekstri sé sú sama hér og í Evrópu. Eftir hrun sé heldur ekki sama óvissa um gæði eigna þeirra hér. Þá sé íslenskum bönkum gert að vera með hærra hlutfall eigin fjár en gerist erlendis, líkt og titill skýrslunnar ber með sér. „Kennitölusamanburður bendir til að verð íslensku bankanna ætti að liggja á bilinu 80 til 90 prósent af innra virði eða eigin fé.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí






Fleiri fréttir

Sjá meira


×