Viðskipti innlent

Bankarnir hækka óverðtryggða vexti

ingvar haraldsson skrifar
Breki Karlsson segir dýrt að vera Íslendingur.
Breki Karlsson segir dýrt að vera Íslendingur.
Viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa allir hækkað breytilega vexti af óverðtryggðum lánum um hálft prósent. Þær skýringar fengust frá bönkunum að  vaxtahækkunin væri vegna stýrivaxtahækkunar Seðlabankans um 0,5 prósent í ágúst.

Þá hækkaði Landsbankinn einn banka gjaldskrár auk þess að fækka liðum með það að markmiði að einfalda hana.

„Ef vextir hækka um hálft prósent þýðir það að afborganir hækka um fimm þúsund krónur fyrir hverja milljón sem þú skuldar. Fyrir dæmigerða fjölskyldu sem skuldar tuttugu milljónir þýðir það hundrað þúsund króna hækkun á afborgunum á ári,“ segir Breki Karlsson, hagfræðingur og forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi.

„Þetta sýnir kannski hvað best hvað vextir á Íslandi eru ótrúlega háir, sér í lagi í samanburði við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Í Danmörku eru hús­næðis­vextir 2-3 prósent, og jafnvel lægri í sumum tilfellum. Við erum þá með um fimm prósentustigum hærri vexti, sem þýðir auka 50 þúsund krónur á hverja milljón sem þú skuldar á ári. Þannig að það er alveg gífurlegur kostnaður sem felst í því að vera Íslendingur,“ segir Breki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×